Spurt og svarað

30. nóvember 2006

Af hverju fara brjóstagjöf og ábót ekki vel saman?

Ég var að lesa svar hérna áðan og ég tók eftir einu sem ég fór að pæla lengi í. Af hverju fara brjóstamjólk og ábót ekki vel saman? Er betra að gefa bara ábót frekar en að reyna að gefa úr brjóstinu líka?

Á einn 12 vikna hraustan stóran strák sem drekkur um 150 ml í hverri gjöf á 3-4 tíma fresti og sefur vel á næturna, vaknar bara kl 1-2 og svo kl 8. Langaði líka að vita hvort það sé erfitt að auka brjóstamjólkina aftur og hvaða aðferð er best að nota? Ég var strax komin með fullt af mjólk eftir að hann fæddist, veit ekki hvort það hefur eitthvað að segja. Reyni að gefa honum aðeins brjóst fyrir hverja gjöf og svo drekkur hann bara brjóstið á morgnana um kl 8 og sofnar aðeins og vill svo drekka aftur eftir mesta lagi 2-3 tíma.

Með fyrirfram þökk og von um svar, Guðný.

 


 

Sæl og blessuð Guðný.

Þetta með að brjóstamjólk og ábót fari ekki saman byggist á þeirri staðreynd að þegar byrjað er með ábót hefur hún tilhneigingu til að smáaukast þar til hún er orðin uppistaðan og svo einvörðungu næring barnsins. Það er líka sú staðreynd að þær konur sem byrja ábót hafa börnin styst á brjósti. Að sjálfsögðu er ekki betra að hafa barnið bara á ábót.  Ef ég skil útskýringar þínar rétt þá er þitt barn næstum því ekki á brjósti. 1 gjöf á sólarhring er mjög lítið fyrir svo ungt barn. Ef það fær 150 ml. í ábót í hverri gjöf er nokkuð ljóst að brjóstin framleiða ekki mikið. Það kemur ekki fram hvað fór úrskeiðis hjá þér. Ef þú hefur framleitt svona vel í byrjun er ekki gott að segja hvað hefur skeð. Stundum er alveg nóg a byrja ábót því eins og kom fram hér áðan vefur það yfirleitt fljótt upp á sig.
Þú getur alveg snúið þróuninni við en fyrir því þarf að vera einlægur vilji því það kostar vinnu. Það er erfitt í 4-7 daga en yfirleitt ekki lengur. Aðferðin er einfaldlega sú að minnka ábót barnsins markvisst svo barnið kalli meira á brjóstið og brjóstin fari að framleiða meira. Þetta getur fjölgað gjöfunum mjög snarlega tímabundið og best er ef barnið vill taka margar smágjafir (jafnvel á sama klukkutímanum). Það tekur brjóstin svolítinn tíma að bregðast við með aukinni framleiðslu en af því þér gekk vel í byrjun þá ætti það að ganga nokkuð vel. 

Vona að þú hellir þér út í þetta.              

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.