15 vikur og óléttueinkenni

06.12.2014

Ég er komin tæpar 15 vikur á leið og geng með mitt annað barn. Ég hef fundið mikið fyrir óléttueinkennum nánast frá getnaði sem virðast lítið vera að minnka og eru farin að há mér mikið í daglegu lífi. Húðin á mér er mjög slæm af hormónabólum, verstar á enni og á kjálkum, húðin á mér feit eins og gefur til kynna og mikill pirringur. Sömuleiðis er hárið fitugt og mikil erting í hársverði. Þetta er vandamál sem ég hef ekki glímt við áður.Frá því ég varð ólétt hef ég svitnað mjög mikið á nóttunni, þannig að ég þarf að skipta um nærfatnað og þessi nætursviti hefur mikil áhrif á svefninn hjá mér. Ég á erfitt með að vakna á morgnana, ég vakna þvöl og slöpp, mikill kuldi í mér sem og yfir daginn. Einnig hef ég ekki losnað við ógleðina sem ég hef verið að glíma við frá 6.viku og er við það að bugast á þessum vandamálum. Eru þetta allt eðlilegir fylgikvillar óléttunnar? Er eitthvað sem ég get gert annað heldur en að láta tímann líða?
Komdu sæl, þetta er ekki gott að heyra. Þessi einkenni eru heldur meiri en oftast nær en þau eru vegna hormónabreytinga. Þú þarft hinsvegar á hormónunum að halda til að viðhalda meðgöngunni svo að ekki er mikið hægt að gera. Oftast nær lagast þetta nú samt þegar líður aðeins meira á meðgönguna. Þú ferð væntanlega í skoðun til ljósmóður um 16 vikur og ég mundi ráðleggja þér að ræða þetta við hana. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
6. desember 2014