Áfengi - brjóstagjöf

29.03.2009

Sæl!

Ég er alveg í rusli yfir gærkvöldinu en þá fékk ég mér áfengi í fyrsta skipti eftir að dóttir minn fæddist. Ég bæði reykti og drakk (í hófi) áður en snarhætti strax eftir að ég varð ófrísk. Núna er dóttir mín níu mánaða og farin að sofa flestar nætur frá klukkan 21-03. Ég ákvað að fá mér bjór af sérstöku tilefni sem varð að 2 1/2 bjór og 4 sígarettum. Ég veit ekki hvort ég fann á mér, kannski smá. Svo um klukkan 23:00 vaknaði dóttir mín grét og vildi brjóst. Það rann samstundis af mér þegar hún byrjaði að gráta. Eftir klukkutíma gafst ég upp og gaf henni brjóst. Hún drakk vel og sofnaði. Hvað segir þú um þetta? Ég las hér inn á síðunni að það væri í lagi að gefa brjóst svo lengi sem móðirin finnur ekki fyrir áhrifum. Þarf samt alltaf að líða einhver ákveðinn tími? Skiptir aldur barnsins einhverju eða að það sé farið að borða mat? Ég sé hrikalega eftir þessu en fannst bara einhvernvegin tími til kominn að lyfta sér upp.

Með fyrir fram þökk. KKK.

 


Sæl og blessuð KKK!

Það er slæmt að þú skulir hafa fengið samviskubit en samt líka gott. Slæmt því þetta er vond líðan og manni á ekki að líða illa vegna brjóstagjafarinnar. Gott því það sýnir að þú vilt gera þitt besta og veist að það er ekki jákvætt að drekka áfengi. Maður verður alltaf að gera það sem samviskan býður manni. Þetta er ekki alvarleg yfirsjón hjá þér og þú veist greinilega að þetta er nokkuð sem ekki má koma oft fyrir. Aldur barnsins skiptir ekki miklu máli og ekki heldur að barnið er farið að fá mat.

Ég hef í sjálfu sér meiri áhyggjur að þeim sem láta þetta koma oft fyrir og jafnvel verra og það hreyfir ekki einu sinni við samvisku þeirra.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. mars 2009.