Spurt og svarað

30. júlí 2009

Áfengi og brjóstagjöf

Því er þannig háttað hjá mér að ég og faðir barnsins míns skiptumst á að vera með það frekar jafnt. Barnið er bara 3 mánaða en ég mjólka mig og hann fær brjóstamjólk til að gefa barninu þegar hann er með það. Ég mjólka vel ennþá og ekkert mál með það. En þegar ég er ekki með barnið fer ég út að skemmta mér með vinum mínum og drekk alveg áfengi og reyki og "djamma" eins og annað ungt fólk. (Mjólka mig reglulega að sjálfsögðu þegar ég er edrú og geymi mjólkina fyrir föðurinn.) Getur það minnkað mjólkurframleiðsluna að ég drekki mikið þær helgar sem ég er ekki með barnið. Er það að ég drekki (þegar barnið er ekki hjá mér) og reyki (að staðaldri) ástæða til að hætta með það á brjósti? Svarið fljótt. Hef svo miklar áhyggjur af því að ég sé að eyðileggja mjólkurframleiðsluna eða gera barninu mínu eitthvað slæmt.

 


Sæl og blessuð!

Ef þetta fyrirkomulag gengur upp hjá ykkur þá er það bara í fínu lagi. Það hefur verið talað um það hér á síðunum áður að áfengi í hófi er ekki talið skaða barn á brjósti og að brjóstagjöf á ekki að vera eins  og fangelsi. Mikil áfengisnotkun er þó talin geta haft áhrif til minnkunar á framleiðslu þannig að það er atriði sem þú gætir þurft að hafa í huga. Reykingar eru líka taldar geta haft hamlandi áhrif á framleiðslu. Þannig að þú þarft að fylgjast með framleiðslunni þinni en þú ert ekki að eyðileggja hana. Að sjálfsögðu er engin ástæða til að hætta brjóstagjöfinni. Kostirnir eru miklu fleiri en gallarnir.

Gangi þér sem best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.