Spurt og svarað

18. október 2004

Áfengi og brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir góðan og nytsaman vef :)

Mig langar til þess að spyrjast fyrir um áfengi og brjóstagjöf. Ég er ein af þeim sem að hef tekið þessum nýju rannsóknum um áfengi á meðgöngu mjög alvarlega og drakk ekki sopa alla meðgönguna. En núna langar mig að vita hvernig er þetta með brjóstagjöfina er í lagi að fá sér einn bjór eða eitt rauðvínsglas þegar maður er með barn á brjósti?

........................................................................

Sæl og velkomin á vefinn.

Það er gott að þú drakkst ekki á meðgöngunni. Það finnst mér að ætti að vera reglan. Það eru hins vegar 2 ólíkir hlutir, hvað fer yfir til barns á meðgöngu og hvað fer yfir til barns með brjóstamjólk. Þess vegna geta flogaveikar konur farið aftur yfir á lyfin sín eftir fæðingu og þær sem fá þunglyndi farið á lyf án þess að hætta brjóstagjöf o.s.frv. Það þarf þó að vera alveg skýrt að allt sem fer inn fyrir okkar varir fer út í mjólkina að einhverju leyti. Það fer þó eftir gerð og magni efnisins og mörgum fleiri þáttum í hve miklu mæli það er. Stundum fara efni aðeins tímabundið í mjólkina. Þ.e.a.s. efnið fer inn í mjólkina en stoppar þar aðeins stutt og fer út úr henni aftur og inn í blóðrásina. Þetta eiga margir erfitt með að skilja og halda alltaf að efni séu bara að eilífu strönduð í mjólkinni og ekki dugi annað en eyðileggja þá mjólk sem í þeim er helst lengi á eftir. Meðal efna af þessari tegund er áfengi. Það fer semsagt mjög greiðlega yfir í mjólkina en jafn greiðlega út úr henni aftur. Ef áfengis er neytt í miklu hófi til hátíðabrigða á það ekki að trufla brjóstagjöf. Ekki ætti að leggja á brjóst á meðan áhrif eru finnanleg en þegar þau eru liðin hjá er allt í lagi.

Aldrei láta til hugar koma að mjólka brjóst eftir áfengisneyslu og henda mjólkinni frekar en eftir svæfingu. Það er fáránlegt og lýsir skilningsleysi á mjólkurframleiðsluferlinu. Það er eins og að mjólka brjóst og henda mjólkinni eftir að móðirin borðaði súrsaðan (eða indverskan) mat.

Með bestu kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. október 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.