Áfengi og brjóstamjólk. Þurrmjólk í staðinn?

16.07.2008

Systir mín var með mér í fríi á Spáni og var með 5 mánaða dóttir sína, henni fannst notalegt að fá sér 1 vínglas með mat í hádeginu og 1-2 vínglös á kvöldin með mat. Í stað þess að gefa brjóst gaf hún barninu pela. Er betra fyrir barnið að fá pela í stað brjóstamjólkur þegar móðirin er búin að neyta áfengis í þessum mæli. Áfengið fer yfir í mjólkina en ég hélt að það væri innan við 2% og svo hélt ég að brjóstamjólkin væri alltaf best eins og ég las í einhverju innleggi um reykingar að það væri betra fyrir barn sem ætti móður sem reykti að vera á brjósti en ekki.


Sæl og blessuð.

Jú, þetta er rétt hjá þér. Það er mörgum sinnum betra að barnið fái móðurmjólkina sína þótt í henni leynist smá vínandi heldur en að fá þurrmjólk. Það ætti að vera lítið mál fyrir flestar mæður að hafa neysluna í lágmarki undir svona aðstæðum og aðeins tímabundið. Þá geta þær með góðri samvisku leyft sér 1-2 glös stöku sinnum.

Góða samviskan skiptir nefnilega máli.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2008.