Áfengi og helmingunartími

16.09.2007

Sælar og þakka góðan vef.

Spurning mín er  svohljóðandi.  Er í lagi fyrir mig að fá mér einn eða tvo bjóra, um 5% og gefa svo brjóst eftir 5 til 6 tíma.  Hver er eiginlega helmingunartími áfengis í blóði?  Ég virðist ekki geta fundið upplýsingar um það. Svörin um áfengi og brjóstagjöf er frekar loðin og er ég skíthrædd um að barnið mitt hafi fengið á einhverjum tímapunkti vott af áfengi með mjólkinni, þótt þessi tími líði á milli (5 til 6 klst).  Ég tek það fram að ég hef ekki verið að sturta í mig, heldur fengið mér aðeins annað slagið á kvöldin eftir að barnið fór að sofa 6 til 10 tíma á nóttu.

Kveðja, Anna.


Sæl og blessuð Anna.

Það er svo sem eðlilegt að svör varðandi áfengi geti talist loðin á köflum því áfengi hefur missterk áhrif hjá einstaklingum. En þetta er í raun ekkert flókið mál. Styrkur alkóhóls í brjóstamjólk er jafnhár styrk í blóði. Og styrkur í blóði er hæstur þegar einstaklingurinn finnur mestu áhrifin. Þegar svo einstaklingurinn finnur áhrifin dvína er styrkurinn hratt lækkandi bæði í blóði og mjólk. Mikilvægasta reglan er því sú að brjóst má ekki gefa ef áfengisáhrif finnast en um leið og þau eru alveg horfin er allt í lagi að gefa brjóst. Þetta er svolítið mislangur tími milli einstaklinga og því verður hver kona að taka ábyrgð á því hvenær er í lagi að gefa brjóst og hvenær ekki. Alkóhólið er svo mun lengur í líkamanum á meðan unnið er úr því en þá fer það ekki til mjólkurinnar. Áhrif byggjast að sjálfsögðu á alkóhólmagni sem innbyrt er. Veikir drykkir (lág%) eru að sjálfsögðu betri en sterkir og magnið skiptir svo náttúrlega sköpum. Helmingunartími áfengis er stuttur sem telst jákvætt í tengslum við brjóstagjöf. Ég get ekki svarað hvort er í lagi að drekka 1-2 bjóra því þeir eru bæði misstórir og missterkir. Ég veit heldur ekki hvort þú ert lítil og mjó eða stór og sterk. Þú verður að finna þetta út sjálf en þú getur kíkt á www.visindavefur.is og slegið inn „áfengi“.

Vona samt að þetta séu minna loðin svör en þú ert vön.   

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. september 2007.