Aftur á brjóst 7 vikna gamall

04.01.2009

Sæl!

Ég er með 7 vikna gamlan strák sem hefur verið á pela síðustu 4-5 vikurnar. Ég hef mjólkað mig á 3-4 tíma fresti og gefið honum í pela. Ef ég hef ekki mjólkað nóg hefur hann fengið þurrmjólk sem upp á vantar. Þegar ég gaf brjóst fyrstu vikurnar gekk það hálf brösulega. Hann var á brjósti næstum allan sólahringinn, var lengi að drekka og sofnaði eftir 5 mínútur á brjósti.  Það var mjög erfitt að vekja hann til að halda áfram eða halda honum vakandi meðan hann drakk. Hann svaf í 10-15 mínútur var enn svangur og vildi halda áfram að drekka. Við vorum bæði orðin úttauguð og hann mjög pirraður. Það var eins og það kæmi lítið úr brjóstunum og hann fengi ekki nóg. Ég var búin á því þar sem ég var ósofin í langan tíma. Get ég svissað aftur í brjóstagjöf núna? Ef svo er hvernig er best að standa að því?

 


Sæl og blessuð.

Það getur skipt máli hvernig byrjun brjóstagjafarinnar var. Þá á ég við hve löngu eftir fæðingu hann fór fyrst á brjóst og hvernig fyrstu gjafirnar gengu. Ef þú telur að vel hafi gengið fyrstu 2 sólarhringana hefurðu alla möguleika á að geta skipt aftur yfir í brjóstagjöf. Það er þó hægt að lesa milli línanna að gripið hans hafi ekki verið rétt þannig að þú þarft fyrst að fá hjálp við að laga það. Síðan er þetta svolítil þolinmæðisvinna í nokkra daga til 1-2 vikur. Þá ertu að smávenja hann við nýja aðferð. Aðferð sem flestum börnum líkar betur við þannig að það er í sjálfu sér ekkert svo erfitt.

Vona að þetta gangi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. janúar 2009