Aftur brjóstagjöf eftir langt hlé

08.07.2012
Góðan dag!
Mig langaði að forvitnast um hvort þið vitið dæmi um að konur hafi náð að starta brjóstagjöf aftur eftir langt hlé? Drengurinn minn var á brjósti til 7 vikna en þá tók ég þá erfiðu ákvörðun að hætta með hann á brjósti. Ég er eiginlega búin að vera í sorgarferli síðan. Helstu ástæður voru þær að hann var veikur og þyngdist illa. Það komst ekkert annað að hjá mér en að koma ofan í hann næringu með öllum ráðum. Fyrir á ég tvö börn. Yngra barnið hafði ég á brjósti í tæpt ár þannig að ég veit hversu frábær góð brjóstagjöf er. Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan hann fékk brjóst almennilega. Enn lekur mjólk hjá mér og mig langar svo að vita hvort ég geti byrjað aftur. Ég er búin að prófa að leggja hann á bæði brjóstin og hann virðist hafa fengið smá sopa úr báðum. Hvernig er best að ég fari að? Með von um að þetta sé hægt.

Sæl og blessuð!
Já, það eru til margar sögur af konum sem hafa byrjað brjóstagjöf aftur eftir mislöng hlé. Að setja mjólkurframleiðslu aftur af stað byggist eins og alltaf á örvuninni. Ég hugsa að það sé best fyrir þig að kreista smá úr brjóstunum á 2-3 tíma fresti í nokkra daga. Það er auðvitað enn betra ef hann er tilbúinn að sjúga smástund nokkrum sinnum yfir daginn. Ekki þvinga neitt fram. Sjáðu til hvað gerist. Mjólkurframleiðslan fer tiltölulega auðveldlega af stað ef það er eftirspurn en það tekur alltaf einhverja daga eða vikur að ná henni alveg upp. Svo er það spurninginn hvernig barnið tekur þessu.

Með bestu óskum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafráðgjafi,
8. júlí 2012