Spurt og svarað

07. júlí 2010

Áhrif áfengis á brjóstmylking

Góðan dag!

 Ég hef lesið hér á vefnum sem og annarstaðar hvað ráðlegt er að gera varðandi drykkju meðan konur eru með barn á brjósti. Ég hef hins vegar ekki séð hér á vefnum hvaða áhrif það hefur á barn að drekka af brjósti þegar móðirin hefur drukkið meira en æskilegt er, segjum til að hafa þetta nákvæmt 6 - 8 drykki og barnið er 1/2 árs gamalt og farið að neyta annarrar fæðu með brjóstamjólk. Getur barnið orðið fyrir varanlegum skaða eða hver er hættan?

Með kærri kveðju fyrir góðan vef. Móðir.

 


Sæl og blessuð Móðir!

Þetta eru ansi erfiðar spurningar og með mörgum „efum“. Til að byrja með ætla ég að undirstrika að æskilegast er að drekka ekki áfengi á meðan brjóstagjafatíminn varir eða að hafa það í eins miklu lágmarki og skynsemin leyfir. EF það kemur hins vegar fyrir að drukkið er mikið þá skiptir máli á hve löngum tíma það er gert. Það skiptir líka máli hve gamalt barnið er og hve stór hluti af fæðu þess er brjóstamjólk. Og mestu máli skiptir hve langur tími líður frá drykkju og þar til brjóst er gefið. Ef við gefum okkur að móðir drekki marga drykki á stuttum tíma (verði ölvuð) og gefi brjóst stuttu seinna má gera ráð fyrir að barnið fái alkóhól með mjólkinni. Það sýnir þá áfengiseinkenni-verður kátt, hávært og fyrirferðarmikið. Síðan dregur af því og að lokum sofnar það. Það er kannski ólíklegt að það valdi varanlegum skaða en það er ekki gott fyrir barn að fá slík aukaefni með mjólkinni sérstaklega ekki ef það margendurtekur sig. Þess vegna er reynt að koma í veg fyrir það sem verða má.

Með bestu kveðju.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. júlí 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.