Áhrif lyfja á brjóstagjöf

26.06.2009

Sælar og þúsund þakkir fyrir frábæran og fræðandi vef!

Mig langar að vita hvert er best að leita varðandi áhrif lyfja á brjóstamjólk og hvort lyf séu ráðlögð með barn á brjósti. Nú eru margir sem hægt er að ráðfæra sig við en mín reynsla í gegnum árin er sú að sjaldan fær maður sömu svör milli fræðimanna og oft er ekki mælt með lyfjum sem aðrir segja í lagi og öfugt. Nú á ég von á mér eftir nokkra mánuði og tek lyf að staðaldri þegar ég er ekki ófrísk og ég vill helst sleppa við að leita þangað sem vitneskjan er minnst eða jafnvel röng. Þannig að spurning mín er þessi, leitar maður til barnalæknis, hjúkrunarfræðings, ljósmóður,fæðingarlæknis, brjóstgjafarráðgjafa, heimilislæknis eða þess læknis sem skrifar uppá lyfið? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að svarið hefur stór áhrif á það hvort ég geti verið með börnin á brjósti og vill því vera 100% viss að fá réttu upplýsingarnar.

Kærar þakkir.

 


Sæl og blessuð!

Það er rétt hjá þér að það er stundum auðvelt að fá mismunandi svör við sömu spurningunni. Allir þeir aðilar sem þú telur upp hafa góða grunnþekkingu á lyfjum en eru samt misvel að sér þegar kemur að lyfjagjöf í brjóstagjöf. Um hana gilda nefnilega sérstakar reglur sem eiga ekki við almennt. Hér áður fyrr var sett blátt bann við flest lyf í brjóstagjöf en með rannsóknum hefur komið í ljós að taka flestra lyfja er í lagi. Svo eru stöðugt að koma fram upplýsingar um fleiri og fleiri lyf sem eru samrýmanleg brjóstagjöf. Til hvers sem þú leitar er mikilvægt að viðkomandi afli sér upplýsinga um viðkomandi lyf í lyfjabókum sem fjalla sérstaklega um brjóstagjöf en ekki í almennum lyfjabókum. Til þessa eru allir færir sem þú nefndir en af því þú spyrð svona beint vil ég nefna lyfjafræðinga eða brjóstagjafaráðgjafa.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. júní 2009.