Áhyggjur af brjóstagjöf

09.11.2013
Sæl og blessuð og takk fyrir frábæran vef!
 Ég er ófrísk af fjórða barni og er alsæl með það núna þràtt fyrir smà sjokk í byrjun því ég var í raun hætt í barneignum. Ég hef svo miklar àhyggjur að geta ekki haft barnið à brjósti vegna þess að ég fór í "brjóstlyftingu" àrið 2010. Nú er ég komin 21 viku. Ég hef verið mjög aum í geirvörtum en er ekki enn komin með neinn brodd. Þegar ég gekk með hin minnir mig að ég hafi fengið broddinn snemma. Ég hef góða tilfinningu í geirvörtunum og herpast þær þegar við à en mér finnst skrítið að það sé ekki kominn broddur. Get ég þà útilokað brjóstagjöf? Mig langar svo heitt að geta haft þetta barn à brjósti eins og hin því ég kann ekki hitt og veit að auðvitað er brjóstamjólkin best. Hverjar eru líkurnar à að maður geti haft à brjósti? Það var bara tekin aukahúð og lyft brjóstunum, engir mjólkurkirtlar fjarlægðir. Ég finn samt allt öðruvísi fyrir í brjóstunum en þegar ég gekk með hin.

Sæl og blessuð!
Ég get glatt þig með því að það eru allar líkur á því að þú getir haft þetta barn á brjósti eins og hin. Brjóstalyfting er eins og þú segir ekkert sem snertir framleiðandi kirtla eða truflar homón. Það að broddur komi ekki snemma eða ekki mikill er ekki áreiðanlegt merki í þínu tilfelli. Þú ættir frekar að finna svolitla stækkun brjóstanna eða eymsli. Svo getur verið að broddur komi á síðustu vikum meðgöngunnar.
Með ósk um gleðilega brjóstagjöf.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. nóvember 2013