Spurt og svarað

16. október 2004

Áhyggjur af brjóstagjöf

Sælar.

Mig vantar ráðleggingar varðandi brjóstagjöf. Barnið mitt sem er 7 vikna drekkur aldrei nema u.þ.b. 10 mínútur í einu og stundum styttra. Það þyngist, en ekki nema um u.þ.b. 100 -200 grömm á viku. Það er fætt stórt og ég hefði viljað sjá það þyngjast meira. Ég hef áhyggjur af því að það fái ekki nægan „rjóma“ því það drekkur svo stutt. En það virðist vera orðið satt eftir þessar 10 mín. Það sofnar ekki á brjóstinu, hættir bara og vill ekki meira, það skiptir ekki máli þó ég bjóði hitt brjóstið, drekkur reyndar aldrei nema úr öðru brjóstinu í einu og virðist ekki tæma það. Barnið mitt er ákaflega vært, notar snuðið sjaldan og sefur vel og kvartar ekki, það drekkur kröftulgega þegar það drekkur og liggur svo bara og hjalar þangað til það sofnar þannig að það virðist ekki vera svangt. Það sefur oft í 2-3 klst á daginn og á nóttunni í allt að 5 klst í einum dúr. Hvað er „rjóminn“ lengi í brjóstinu. Get ég boðið sama brjóstið eftir kannski 30-60 mín og fær það þá „afganginn“ eða er allt byrjað upp á nýtt? Ég reyni stundum að taka það upp og bjóða því brjóstið eftir kannski 1 klst og þá vill það sjaldnast fá sér, sleikir bara geirvörtuna. Kannski er ég bara að búa til vandamál, en mér finnst þetta svo stutt sem það drekkur það er talað um að börn þurfi helst að drekka í 20-30 mín, tæma brjóstið og bjóða hitt og að þau eigi að drekka allt að 8-12 sinnum á sólarhring og það er alls ekki svo oft hjá okkur.

Takk fyrir, áhyggjufull mamma.

Sæl og blessuð áhyggjufulla mamma.

Því sem þú lýsir er vissulega ekki til þess að hafa áhyggjur af. Þegar talað er um gjafalengd barna á brjósti er sagt að meðalgjafalengd sé 15 mín. Það þýðir að flest börn eru á því bili en það þýðir líka að ákveðið hlutfall barna er í 10 mín. gjöfum og ákveðið hlutfall barna er í 60 mín. gjöfum. Gjafalengd er einstaklingsbundin og þú er með í höndunum það sem við köllum „fljótu týpuna“. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af rjómamagninu. Brjóst hafa sýnt sig að aðlagast „fljótu týpunum“ og í þeim myndast formjólk í stuttan tíma. Kannski 1-2 fyrstu mínúturnar en eftir það kemur eftirmjólk (rjómi). Þetta er ekki tilfellið hjá mæðrum með „rólegar týpur“ en svona er nú náttúran stórkostleg. Oft eru mæður „fljótu“ barnanna að reyna að kreista þau upp í þessar 10 mín. En þegar talað er um að börn drekki mislangar gjafir þá er það ekki eins sveigjanlegt bil hjá barni sem er fljótt að drekka og öðrum. Svo tekið sé dæmi þá taka börn oft stuttar gjafir í miklum hitum því þau vilja bara formjólk til að slökkva þorstann. Hjá barni sem drekkur venjulega 30 mín. er þetta u.þ.b. 10 mín. gjöf en hjá fljótu barni 2 mín. Ég mæli alltaf með að mæður reyni að hafa 1 langa gjöf á sólarhringnum brjóstanna vegna. Í þínu tilfelli væri það þá 15 mín. gjöf sem sumar mæður myndu ekki einu sinni kalla gjöf.

Þyngdaraukningin er mjög fín og ekki til að hafa áhyggjur af.

Spurningin um hve lengi rjóminn er í brjóstinu er svolítið snúin. Hann byrjar raunar að þynnast út strax að lokinn gjöf. Oftast er tala um að ef barn vill drekka aftur eftir 10-15 mín. þá sé sama brjóst boðið aftur en eftir 30-60 mín. þá ertu á byrjunarreit.

Þú segist alls ekki vera að gefa 8-12 gjafir á sólarhring en ef barnið sefur 2-3 tíma milli gjafa á daginn og 5 klst að nóttu þá hlýtur það að ná 8 gjöfum. Prófaðu bara að telja gjafirnar í nokkra daga. Þannig að í stuttu máli þá ertu að gefa nógu margar gjafir, nógu lengi og 1 brjóst í gjöf sem er gott. Barnið þitt er vært og gott og þyngist eðlilega. 

Kveðja, Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.