Spurt og svarað

09. maí 2005

Alltaf á brjóstinu

Ég er með eina 4 vikna sem hreinlega hangir á brjóstinu allan daginn. Hún sefur langa dúra á nóttunni, 3-5 tíma en á daginn er hún alltaf að drekka og mér finnst ég vera gjörsamlega tóm! Hún drekkur í 5-20 mín og sofnar á brjóstinu. Ég legg hana þá í rúmið og stundum sefur hún í 10-30 mínútur en yfirleitt vaknar hún um leið og ég legg hana. Svo er stundum eins og hún sé ekkert svöng, hún bara opnar munninn og stingur brjóstinu upp í sig, fær sér tvo þrjá sopa og svo ekkert meir.  Hún er samt voða vær og grætur lítið sem ekki neitt en ég bara sit með hana allan daginn. Er málið að ég er ekki að mjólka nóg? Hún virðist samt alltaf vera södd þegar hún hættir að drekka og vill alls ekki meira en svo kannski 5 mínútum seinna er hún orðin svo hungruð eins og hún hafi ekkert fengið allan daginn. Ég allavega geri lítið annað en að gefa henni á daginn, eins gott að ég á ekki fleiri börn.

Með von um einhver svör.

......................................................................

Sæl og blessuð.

Já, þetta getur verið erfitt. Teldu saman hvað gjafirnar eru margar yfir sólarhringinn. Ef þær eru mikið fleiri en 12 þá er gjafamynstrið þitt eitthvað úr lagi gengið. Það er að segja ef þetta er viðvarandi mynstur en ekki bara vaxtarsprettur. Vaxtarsprettur er það þegar börn taka 2-3 daga í röð með óvenjumörgum gjöfum en fara svo aftur niður í venjulegan gjafafjölda. Það er reyndar alltaf mislangt á milli gjafa hjá börnum og langur nætursvefn þýðir að 2 gjafir þurfa að bætast við annars staðar á sólarhringinn. Ekki segja að þér finnist þú vera „tóm” ef þú ert að tala um brjóstin. Þau framleiða alltaf í viðbót eftir því sem beðið er um. Tómleikatilfinning getur hins vegar bent til að þú sért ekki að sinna sjálfri þér nóg. Borðarðu reglulega? Drekkurðu eins og þorstinn segir til um? Færðu hvíld annað slagið? Ferðu út í gönguferðir o.s.frv.? Ef þú sinnir sjálfri þér þá verðurðu aldrei „tóm”. Sum börn þarfnast meiri nærveru en önnur. Þau þurfa ekkert endilega að vera alltaf að borða en þau þurfa næstum alltaf að vera upp við mömmu sína eða einhvern annan. Þess vegna var fundinn upp burðarpoki eða sling því mæður þeirra sáu ekki fram á að þær gerðu handtak það sem eftir væri ævinnar. Oftast er þetta tímabil hjá börnum þar sem þau þurfa sérlega mikla nærveru. Láttu það eftir barninu. Hafðu það mikið hjá þér, hafðu það að einhverjum hluta bert þar sem það getur snert nakta húð þína. Taktu það með þér í bað. Þér er óhætt að trúa því að þetta nána samband færðu borgað margfalt til baka. Og eitt að lokum. Ef barnið er að taka 2-3 sopa og hætta svo, gæti verið að því væri of heitt? Ef það á að drekka taktu þá af því teppið, sængina, hlýjustu fötin o.s.frv.

Með bestu ósk um ánægjulega samveru,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.