Annað brjóstið betra en hitt

08.08.2012
Sælar verið þið!
Mig langar til að spyrjast fyrir um eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér. Þannig er að stelpan mín sem er 7 vikna er oft hálf vælandi allan tíman sem hún er að drekka úr vinstra brjóstinu. Hún þagnar svo um leið og ég set hana á það hægra. Hún vælir aldrei svona á hægra brjóstinu. Það er að vísu meira flæði úr vinstra brjóstinu (kannski helst til lausmjólka þar) en mér finnst svo ólíklegt að það sé eina ástæðan fyrir því að hún verður svona reið. Getur það verið eitthvað annað en flæðið?

Sæl og blessuð!
Það er nánast alltaf einhver munur á milli brjósta. Bæði er munur á framleiðslumagni, lítill eða mikill eftir aðstæðum og flæðishraða eftir gerð mjólkurganga. Það hefur líka í rannsóknum mælst munur á samsetningu mjólkurinnar sem er í rauninni eðlilegt því um tvo aðskilda kirtla er að ræða. Þessi munur milli brjósta skiptir þó engu máli og er bara góður fyrir barnið nema ef ýtt er óeðlilega mikið undir hann. Þá getur hann farið að valda móðurinni óþægindum vegna misstórra brjósta, stellingavandræðum og hegðunarbreytingum barns. Þannig að ég mæli með að reynt sé að jafna út svona mun með öllum tiltækum ráðum.
Já, það geta verið aðrar ástæður fyrir óværð barna á öðru brjósti eins og eyrnabólga öðru megin eða önnur líkamleg óþægindi vegna stöðu. Svo er líka þekkt að börn láta illa við brjósti sem illt er í t.d. sýking. En fyrst er best að reyna að laga ójafnvægið.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. ágúst 2012.