Appelsínugult í bleyjunni

27.12.2007

Góðan daginn!

Ég vildi bara spyrja hvort að þið hefðuð einhvern tímann heyrt um að það gæti komið smá eins og appelsínugulur kúkur þegar börn prumpa? Stelpan mín er 5 vikna, bara á brjósti og er ekki búin að kúka í 1½ viku. Er þetta eitthvað sem ég á að láta kíkja á?


Sæl og blessuð.

Þetta svar er nú orðið svo seint á ferðinni að málið er væntanlega leyst. En eins og þú ert vafalaust búin að finna út þá er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af. Þín stúlka er svolítið snemma á ferðinni en algengt er að um 6 vikna  aldurinn breytist hægðamynstur barna mikið. Sum hætta að hafa hægðir nema á 1,2,3 vikna fresti og flestir foreldrar er nú bara nokkuð ánægðir með það. Sum börn taka sér dag og dag þar sem þau hafa mörgum sinnum hægðir og svo er til ýmis afbrigði af þessu. Aðalatriðið er að fylgjast með að barnið sé frískt og að umferð sé í gegnum þau á hverjum degi, þ.e. vindlosun eða smá bremsufar. Það sem þú nefnir er væntanlega bremsufar og bara hið besta mál.

Vona að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2007.