Astmalyf og mjólkurmyndun

11.05.2004

Sæl

Mig langaði að fá upplýsingar hvort þið vitið til þess að astmalyf (pulmicort og rhinocort) geti haft áhrif að brjóstagjöf, þ.e. geti dregið úr mjólkurmyndun.  Ég er nú með mitt fjórða barn á brjósti og eins og með 3ja barnið finnst mér mjólkurmyndun ekki vera eins mikil og þegar ég var með mín fyrstu 2 börn.  Ég nota þessi lyf að staðaldri en notaði þau ekki þegar ég var með tvö elstu börnin mín á brjósti.  Ég hef því verið að velta fyrir mér hvort þessi lyf sem ég tek að staðaldri geti haft einhver áhrif á brjóstamjólkina.  Vil taka það fram að þrátt fyrir að ég sé nú með fjögur börn er ég ekki undir miklu álagi eða þess háttar.  Get ekki tengt það við minni brjóstamjólk.

Með fyrirfram þökk,

Móðir.

....................................................................

Þau lyf sem þú nefnir „Pulmicort“ og „Rhinocort“ eru sterar sem þú líklega veist mætavel. Ég gef mér það að þú notir þau í innúðaformi (pústi) því þannig eru þau oftast notuð. Það er afar heppilegt í brjóstagjöf því þá virka lyfin staðbundið í lungunum og minna en 20% af þessum lyfjum ná yfirhöfuð lengra inn í líkamann. Ef venjulegir skammtar eru notaðir er þar að auki ólíklegt að skammtar sem gætu haft áhrif næðu inn í mjólkina og staðið barninu til boða.
Þar fyrir utan er ekki ástæða til að ætla að þessi lyf gætu haft áhrif á mjólkurmyndun til hins verra eða betra. Það eru í raun mjög fá lyf sem geta haft áhrif á mjólkurmyndun enda vel vernduð í líkamanum.

Ég er því hrædd um að þú verðir að leita annarra skýringa á meintri mjólkurminnkun. Ég geri ráð fyrir að barnið sé ekki að þyngjast eða þrífast jafn vel og fyrstu 2 börnin. Þú gætir þá reynt að bera saman atriði sem eru ólík hjá þessum 2 settum af börnum. Það gæti verið eitthvað einfalt eins og mismunandi kyn, færri næturgjafir eða meiri snuðnotkun. Það gæti líka verið eitthvað flóknara eins og stór breyting á lífsháttum eða annars konar gjafamynstur seinni barnanna. Svo er það það sem er skemmtilegast eða að kljást við nýjan einstakling. Einstakling sem er öðruvísi en allir aðrir í heiminum. Jafnvel þótt 14 önnur systkini komi á undan honum þá er hann með öðruvísi þarfir en allir hinir og það er annað gjafamynstur sem hentar honum. Hið skemmtilega hlutverk móður er að finna út hvað það er sem hentar þessum einstaklingi svo hann nái að þrífast á hinn besta mögulega hátt eða er hann kannski þeirrar gerðar sem byrjar ævina á að vaxa fremur rólega? Það er líka allt í lagi.

Vona að þetta hjálpi.

Bestu kveðjur,                                                                                     
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 11. maí 2004.