Spurt og svarað

07. ágúst 2007

Aukin eftirspurn hjá 2 vikna snáða

Góðan dag og kærar þakkir fyrir frábæran vef.

Ég er með einn 2 vikna gutta hérna sem er greinilega að reyna að auka mjólkurflæðið hjá henni mömmu sinni. Ég fann fyrirspurn og svar sem á ágætlega við um mína aðstöðu (hefði eiginlega getað skrifað þessa fyrirspurn sjálf) en hún svarar samt ekki alveg öllum mínum spurningum.

Litli gaurinn minn drekkur á 2 tíma fresti yfir daginn, í stað 3-4 áður, verður saddur og allt gengur vel. Á kvöldin virðist hann hins vegar ná að tæma mig alveg gersamlega, tottar brjóstið í örstutta stund og verður svo pirraður (eða sofnar, en verður svo pirraður ef ég hreyfi við honum). Það sem ég er að velta fyrir mér er eftirfarandi:

 1. Er hann eitthvað að örva brjóstið með því að totta svona lauslega og
  sofna á milli? Gagnast mér eitthvað að leyfa honum að hanga á brjóstinu
  svona alveg fram eftir kvöldi, þó hann sé ekki að fá neitt?
 2. Í svarinu sem ég vísa í er mælt gegn því að mjólka sig, því það gefi
  brjóstunum röng skilaboð um eftirspurn. En er það ekki einmitt það sem ég
  þarf að gera núna? Láta brjóstin finna fyrir aukinni eftirspurn?
 3. Ég er farin að mjólka mig eftir gjafir, eins og mælt er með í bæklingi
  sem ég er með, til þess að auka mjólkina. Á morgnana kemur smá, sem ég
  geymi, en á kvöldin kemur EKKERT, og þá gef ég honum það sem ég mjólkaði
  um morguninn (mjólka mig samt aðeins á kvöldin líka til að örva, þó það
  komi ekki neitt). Er nokkuð sem mælir gegn þessu á meðan þetta
  aukningartímabil gengur yfir?
 4. Ég er með mjög góða rafmagnspumpu. Örva ég ekki meira með því að láta
  hana þjösnast dálítið á brjóstinu, heldur en að láta kútinn totta brjóstið
  laust og óreglulega?

Með kærri fyrirfram þökk fyrir svörin.


Sæl og blessuð.

Þetta eru alltaf svolítið erfið tímabil þegar þau eru að kalla eftir meiru og fá einhver pirringsköst. Yfirleitt gengur þetta þó yfir á nokkrum dögum. Það er talið best að láta þau sjálf um alla örvun. Eins og þú hefur fundið eru það fyrst og fremst örari sogtímar. Það er líka í heildina lengri sogtími þótt oft sé erfitt að gera sér grein fyrir því. Styrkur sogsins er nokkuð sem er innbyggt í þau og maður þarf ekki að hafa áhyggjur af. Ef um mjög laust sog er að ræða er stundum talað um huggunarsog. Það er því miður oft gert lítið úr huggunarsogi eins og það sé eitthvað ómerkilegt. Þetta er hins vegar mjög mikilvægt hverju barni. Mesti heilaþroski barns verður í brjóstagjöf á þessum fyrstu vikum og mánuðum þannig að allt sog hversu fast eða laust sem það er, er jákvætt. Ég hef alltaf litið á mjaltanir fyrir heilbrigt barn sem aukavinnu og mjaltanir á einum tíma til að gefa á öðrum sem óþarfa tilfærslu. Þetta er nokkuð sem er misjafnt milli kvenna. Ég er kannski fyrir að hafa hlutina einfalda á meðan aðrir vilja gjarnan vera að vesenast miklu meira.

En svo ég svari spurningunum:

 1. Já, hann er að örva brjóstin á eðlilegan hátt og já, honum gagnast það ósegjanlega. Hann er að fá nákvæmlega það sem hann þarfnast (aldrei segja að hann fái ekki neitt).
 2. Brjóstin finna miklu meira fyrir aukinni eftirspurn frá barninu. Þau eru prógrammeruð þannig. 
 3. Nei, það er ekkert sem mælir gegn þessu. 
 4. Nei, þú örvar töluvert minna með sterku sogi vélar heldur en linu sogi barns. Og þú átt aldrei að láta vélina "þjösnast" á þér. Ég vona að þetta hafi bara verið óheppilegt orðaval.

Vona að brjóstagjöfin þín verði einfaldari

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.