Spurt og svarað

05. júní 2008

Aum geirvarta

Hæ, hæ!

Ég er með tæplega þriggja mánaða gamla stúlku eingöngu á brjósti. Brjóstagjöfin hefur verið svolítið mikið bras hjá okkur. Hún fæddist mánuði fyrir tímann og tók ekki brjóst alveg strax og ég mjólkaði mig handa henni og hún fékk það í pela svo þegar henni gekk betur að sjúga þá tók mexikanahatturinn við og nú tekur hún mest megnis bara brjóstið. En vandamálið liggur hjá mér með annað brjóstið, ég verð mjög aum þegar hún byrjar að sjúga það og svo hættir það í flest skipti. Nú finn ég til eiginlega alla gjöfina, hef prufað hattinn en það er ekkert skárra. En þegar ég tek hana af þá er geirvartan hvít í toppinn og aum og stingir í henni. Svo hef ég tekið eftir að það er harður húðbroddur á geirvörtunni alltaf á sama stað og er ég aum þar í kring. Nú er ég búin að vera slæm í nokkurn tíma og þá er geirvartan orðin það aum að við smá snertingu eða herping þá finn ég til í henni. Það hefur ekki verið neitt vesen með hitt brjóstið en þegar ég er svona sár þá er freistandi að gefa það meira en hitt. Hún tekur snuð á milli gjafa.En spurningar mínar eru:

  1. Hvað er að?
  2. Hvað get ég gert til að  losna við þessi eymsli?
  3. Hvað á ég að gera til að halda því verkjalausu?

Með von um skjót svör.

Kveðja, Ein Aum.


Sæl og blessuð "ein aum".

Það er mjög skiljanlegt að þú sért mjög aum í þessu. Það er kannski ekki alveg hægt að fastákveða hvað þetta nákvæmlega er án þess að sjá það en allt sem mér dettur í hug er mjög sársaukafullt. Þannig að það er í sjálfu sér ekkert annað að gera en að drífa sig til brjóstagjafaráðgjafa og láta laga þetta fljótt og vel. Það er mjög vel hægt að laga svona á fáum mínútum en svo færðu leiðbeiningar um áframhaldandi aðgerðir. Það er lítið sem þú getur gert sjálf eins og er.

Vona að þetta gangi.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.