Aumar geirvörtur-ólétt með barn ábrjósti

02.08.2008

Góðan dag.

Ég er gengin 18 vikur með mitt annað barn en ég á 10 mánaða dóttur fyrir. Hún er ennþá á brjósti og hefur brjóstagjöfin gengið eins og í sögu. Ég ætlaði mér ekki að hætta með hana á brjósti strax en á síðastliðnum tveimur vikum þá hafa eymsli í brjóstunum mínum aukist. Nú er þannig komið að ég fæ sára verki/stingi þegar að ég legg hana á brjóst og mér finnst hún sjúga svo fast. Geirvörturnar eru aumar en ég sé ekki sár á þeim. Ég dauðkvíði því að leggja hana á brjóst en þar sem að hún hefur alltaf verið í léttari kantinum og mikill matargikkur vil ég ekki taka brjóstið af henni. Gæti verið að hún sé eitthvað að taka vörtuna vitlaust allt í einu á 10 mánuði? Tengist þetta meðgöngunni? Ef að þetta versnar hugsa ég að ég verði að taka hana af brjóstinu, þetta er það sárt. Er eitthvað hægt að gera í þessu?

Með von um einhver svör. Takk fyrir :)


Sælar!

Það er alltaf erfitt að segja til um hvað veldur sársauka viðbrjóstagjöf. Ég tel líklegt að sársaukinn í þínu tilfelli komi vegna þess að þú ert þunguð og þá byrja brjóstin að undirbúa sig vegna hormónaáhrifa. Ég tel ólíklegt að hún sé að taka geirvörtuna vitlaust núna ég held að sársaukinn tengist aðallega meðgöngunni. Ég held það gæti verið gott hjá þér að fara í skoðun til brjóstagjafaráðgjafa til að fá álit hvort það sé eitthvað annað sem er valda þessu.

Kær kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
2. ágúst 2008.