Spurt og svarað

16. desember 2008

Að auka mjólk eftir fyrstu vikurnar

Góðan dag og takk fyrir gagnlegan vef!

 Ég á tæplega fimm mánaða gamla stúlku sem er á brjósti. Ég hef haft heilmikið fyrir því að hafa hana á brjósti og get með sanni sagt að ég sé stolt af mér. Ég hef barist við sýkingar, dóttirin afneitaði brjóstinu á tíma, ég missti mjólkina eiginlega alveg niður o.s.frv. Eftir að ég fór að mjólka mig einu sinni til tvisvar á sólarhring (nokkrar vikur síðan ég byrjaði) hefur mér fundist að allt gangi betur. Ég bjó semsagt til auka gjöf eftir að hún sofnar í von um að auka framleiðsluna og daman mín þrífst
vel á bjóstamjólkinni. Nú heyrði ég að það hefði ekkert upp á sig fyrir mig að reyna að auka mjólkina þegar ég væri með þetta gamalt barn. Mér var sagt að það væri bara hægt á fyrstu vikum brjóstagjafar. Er eitthvað til í þessu? Ég hef verið svolítið heilaþvegin af því þessa fimm mánuði að auka mjólkina og passa að mjólka nóg fyrir stelpuna og líður pínulítið eins og kjána núna ef það er svo til einskis.

 


Sæl og blessuð!

Þú mátt sannarlega vera stolt af brjóstagjöfinni þinni. Og ef þér finnst virka vel þetta kerfi sem þú ert búin að búa til fyrir ykkur þá er það í fínu lagi. Það er ekki rétt að ekki sé hægt að auka mjólkina eftir fyrstu vikurnar því það er jú það sem líkaminn er að gera hjá öllum konum alltaf. Það er kannski verið að rugla saman við fyrirbæri sem gerist í þeim tilfellum sem brjóstagjöf fer illa af stað á fyrstu dögunum. Þá er oft á tíðum mjög erfitt að auka mjólkina seinna meir. Það er þó ekki algilt.

Ef þú ert búin að vera í fimm mánuði að passa að mjólka nóg fyrir barnið þitt þá á þér ekki að líða eins og kjána heldur eins og hetju .

Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.