Spurt og svarað

15. ágúst 2014

Að auka mjólk öðru megin en halda hinu "þægu"

Sælar ljósmæður og þakkir fyrir frábæran vef.

Fyrirspurnasafnið og annað er heldur betur fjársjóður að leita í. En það er nú þó þannig að oft þykir okkur nýbökuðu mæðrunum við svolítið einar í heiminum með vafaatriðin og því sendi ég fyrirspurn. Eftir standa þó mörg góð ráð en ég er líka svolítið rugluð hvað sé réttast í stöðunni. Auk þess er hver brjóstagjöf aldrei alveg eins þó reynslan sé jú gott veganesti. Ég er með vikugamlan dreng (fæddur rúmlega 15 merkur) og hefur allt bara gengið vel (þriðja barn, verið með hin bara á brjósti fyrstu 6 mánuðina). Ég hefði þó viljað svolítið betri aðstoð á fæðingardeildinni varðandi brjóstagjöfina þar sem ég hef vegna flatra geirvarta notað mexikanahatt til að byrja með (ekki fundið að hann trufli og hefur gengið vel að venja af þegar vörturnar og börnin hafa verið orðin móttækileg). Slíkt var ekki mögulegt vegna gífurlegra anna á fæðíngadeildinni. En það var þó alveg ljóst að drengurinn minn er að taka geirvörturnar rétt(fór heim á 2. degi). Nú er ég aðeins í vafa. Vinstra brjóstið virðist mjólka aðeins lakara en það hægra. Ég hef verið að gefa annað brjóstið í gjöf hingað til (reyndar gefið bæði á kvöldin síðustu kvöld). Drengurinn er vær og góður en ég finn þó að hann virðist mettari eftir að hafa drukkið af hægra brjóstinu en því vinstra. Þannig er hann líka heldur duglegri á því hægra því þar virðist meira að hafa. Hann gæti í raun hangið á þessu vinstra brjósti stundum alveg lon og don. Ég sá fyrirspurn hjá ykkur þar sem var farið í að auka mjólk á öðru brjósti og gekk út á að láta drekka vel af brjóstinu, taka þá 10 mín pásu og bjóða það svo aftur. Þannig megi auka mjólkina í „lakara“ brjóstinu. Ég hef reynt þetta en er kannski ekki alveg farin að sjá árangurinn og er óviss hvort að ég eigi frekar að vera að skipta á milli brjósta í sömu gjöf. Hef þá verið stressuð um að vera að oförva „betra“ brjóstið. Afsakið þessa langloku. Mér þætti óskaplega vænt um að fá ráð frá ykkur. Þakkir og kveðjur.
Sæl og blessuð!

Þú ert heppin að hafa góða reynslu að byggja á. Núna virðist þú vera komin sæmilega af stað en ráðið sem þú hefur lesið um að auka mjólkina öðru megin er í fullu gildi og ætti að skila sér. Þú gætir líka prófað að gefa vinstra brjóstið í 3-4 mínútur þegar um gjöf á hægra brjósti er að ræða(annað hvort í miðri gjöfinni eða enda hennar). Þú þarft bara að gera þetta annað slagið í 3-4 daga. Þú átt ekki á hættu að oförva betra brjóstið ef þú gefur það bara í annað hvort skipti.

Með von um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. ágúst 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.