Að endurvekja mjólkurframleiðslu

18.05.2014
Sælar og takk fyrir góðan og fræðandi vef!

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort hægt sé að endurvekja mjólkuframleiðslu. Þannig er að ég á von á barni í sumar sem konan mín gengur með. Sjálf gekk ég með fyrra barnið okkar og þegar næsta barn fæðist verður eitt og hálft ár síðan ég hætti með eldra barnið á brjósti. Enn get ég kreist dropa úr brjóstunum (veit þó ekki hvort það séu afgangar eða hvað) og langar mig að forvitnast hvort fræðilega væri hægt að ná aftur upp mjólkurframleiðslunni?

Bestu kveðjur.


Sæl og blessuð!

Það er alltaf hægt að endurvekja mjólkurframleiðslu sem hefur einu sinni verið sett af stað. Það þarf þó talsverða vinnu og þolinmæði til. Þegar þú kreistir fram dropa úr brjóstunum ertu í rauninni að viðhalda örlítilli framleiðslu. Það eru ekki afgangar eins og þú orðar það, heldur framleiðir líkaminn alltaf í stað þess sem er tekið. Aðferðin er því sú sama. Þú eykur bara þessa kreistun markvisst og þá sérðu að magnið eykst smátt og smátt dag frá degi. Til að ná upp nothæfu magni getur þetta tekið margar vikur en því duglegri sem þú ert við að örva, því betur gengur það. En eins og ég sagði, þolinmæði er aðalatriðið.

Gangi ykkur vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. maí 2014.