Að flytja brjóstamjólk milli landa

29.05.2014

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er að velta fyrir mér hvort mögulegt sé að flytja brjóstamjólk með sér á milli landa með flugi. Ég sá fyrirspurn og svar frá ykkur varðandi það að flytja frosna mjólk með sér. En ég hef áhuga á að vita hvort mögulegt sé að flytja ferska mjólk sem er um 1-2 daga gömul. Ef svo er í hvernig umbúðum teljið þið æskilegt að geyma mjólkina?
Sæl og blessuð!

Jú, það er vel mögulegt að flytja brjóstamjólk milli landa. Það er æskilegt að hún sé í sérstökum brjóstamjólkurpokum sem fást í öllum apótekum. Og síðan væri gott að hún væri í lítilli tösku helst með kælielementi. Og litla taskan færi svo ofan í aðaltöskuna sem færi í frakt. Þannig væri þetta sennilega einfaldast og öruggast þótt eflaust mætti nota aðrar leiðir.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. maí 2014.