Spurt og svarað

14. júlí 2009

Að gefa elda systkini brjóst

Sælar!

Ég er gengin rúmar 32 vikur með mitt annað barn og á fyrir 18 mánaða stelpu sem hefur verið að fá nokkrar gjafir á nóttu. Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki meira. Ég finn það mikið til þegar hún drekkur. Sársaukinn byrjaði smátt og smátt í kringum 12 vikur og núna finnst mér hann í hámarki og ég hef fækkað gjöfum niður í 1-2 mjög stuttar undir morgun. Spurningin mín er þessi: Ef ég tek gjafirnar alveg út (við hættum alveg brjóstagjöf), er ekki ólíklegt að hún verði búin að gleyma því eftir 8 vikur þegar næsta barn kemur? Þekkið þið til þess að byrjað sé aftur, þ.e. að eldra barn fái að "smakka" eftir svona pásu? Hvernig virkar að setja mörk á svona ungt "eldra" systkini? Er jafnvel betra að neita því alveg? Ég ætlaði mér að hafa hana lengur á brjósti og finnst hálf leiðinlegt að taka eitthvað af henni fyrir litla systkinið, en ég finn að þetta er ekki að gera mér gott. Ég vona að þið getið sagt mér eitthvað í þessu sambandi. Með kveðju og þökk fyrir góðan vef.

 


Sæl og blessuð!

Það má segja að svörin við þessu gætu verið jafnmörg og börnin. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig svona mál þróast. Þú verður fyrst og fremst að fara eftir eigin sannfæringu. Ég get sagt þér að það er nokkuð algengt eftir svona stutt stopp að eldra barnið sé spennt fyrir brjóstinu þegar farið er að „flagga“ því eftir fæðingu yngra barnsins. Þau vilja sum fá að „smakka“ nokkrum sinnum en yfirleitt verður svo ekki meira úr því. Svo eru til börn sem vilja bara galvösk hella sér út í þetta aftur. Ég held að það sé heilladrýgst að fara eftir eigin tilfinningu. Gerðu það sem þú telur best í stöðunni fyrir þig og bæði börnin og láttu ekkert trufla þig í eigin sannfæringu.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.