Spurt og svarað

01. mars 2007

Að geta ekki framleitt brjóstamjólk

Ég eignaðist yndislega dóttur fyrir tveim mánuðum og allt gengur mjög vel að því undanskildu að ég gat ekki framleitt neina brjóstamjólk. Ég reyndi allt í samráði við ljósmóður og ráðgjafa upp á kvennadeild, þar á meðal að dæla mig á tveggja tíma fresti, mjólkuraukandi jurtatöflur, drekka og borða mikið frá fæðingu og hvílast vel, setja barnið alltaf á brjóstið áður en það fékk pela og að lokum lyfseðilsskylda hormóna sem ráðgjafinn hvatti mig til að prufa. En allt kom fyrir ekki og mér tókst aldrei að framleiða meira en 1-2 ml. á tveggja tíma fresti í þessar þrjár vikur sem ég reyndi. Þetta tók mjög á mig andlega, sérstaklega þar sem mér hafði aldrei dottið í hug á meðgöngunni að ég ætti ekki eftir að geta haft barnið mitt á brjósti. Nú langar mig að vita hversu algengt eða óalgengt það er að geta hreinlega ekki framleitt mjólk og hvort ég eigi að gera ráð fyrir að ég eigi aldrei eftir að geta haft barn á brjósti?


Sæl og blessuð!

Það eru því miður alltaf einstaka konur sem ekki geta framleitt mjólk að neinu ráði. Yfirleitt er orsökin vanþróaður brjóstvefur eða skortur á hormónum. Sem betur fer er þetta sjaldgæft. Kannski 2-3 konur á ári á landinu. Sumum er hægt að hjálpa en öðrum ekki það fer eftir orsökinni. Það er erfitt að svara því hvort þetta er eitthvað sem þú munt eiga von á við næsta barn. Stundum er það þannig og stundum ekki. Reyndu í millitíðinni að komast að því hver var orsökin. Þetta er auðvitað alltaf mjög sorglegt og tíminn er erfiður þegar margar vikur fara í þrotlausa vinnu sem skilar kannski engu. Yfirleitt er reynt í 3-6 vikur. Það sem er jafnvel enn sorglegra er þegar konur slá því föstu að þær geti ekki framleitt næga mjólk og láta lítið sem ekkert reyna á það. Ég vil því hrósa þér fyrir að láta virkilega á þetta reyna þannig að þú veist í hjarta þínu að þú gerðir eins vel og þú gast.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.