Að grennast með barn á brjósti

07.12.2007

Af hverju grennast sumar konur þegar þær eru með barn á brjósti? Ég veit um margar sem standa í stað og einnig nokkrar sem hafa fitnað, af hverju er þetta svona misjafnt?Sæl og blessuð.

Þetta byggist nú mikið á muni milli einstaklinga en fyrst og fremst er það spurning um að finna jafnvægi milli þess sem tekið er inn og þess sem er eytt. Brjóstagjöf er orkukrefjandi ferli og konur með barn á brjósti þurfa meiri orku en konur sem ekki eru með barn á brjósti. Það er svolítið mismikið sem þær þurfa í viðbót. Þetta þýðir ekki að þær þurfi að borða mörgum sinnum meira en þær eru vanar heldur bara litlu meira. Lystin á að segja til um hve mikið líkaminn þarf en konan þarf að passa að það sé á hagkvæmu formi. Það þýðir að það er betra að borða hollt fæði sem nýtist líkamanum vel. Svo skiptir hreyfing auðvitað máli líka. Ef hreyfing er minni en áður sem stundum gerist með nýorðnar mæður þarf minna að borða.

Gangi þér vel. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. desember 2007.