Að hætta brjóstagjöf

10.03.2009

HæHæ!

Takk fyrir frábæran vef. Núna hef ég mikið pælt í brjóstagjöf og hvenær tímabært er að hætta. Brjóstagjöfin hefur gengið æðislega vel og er strákurinn minn enn á brjósti 7 mánaða. Hann er byrjaður að borða flest allt en tekur brjóstinu einstaka sinnum. Suma daga oftar en aðra. Hann fær að drekka einu sinni á nóttu sem mér finnst minnsta mál. En ég get ekki ákveðið mig hvort ég eigi að hætta eða ekki. Hann sýnir brjóstinu lítinn áhuga. Hann drekkur aðeins ef ég býð honum það. Ég er hrædd um að hætta og sjá svo eftir því. Hvenær eru börn hætt að þurfa brjóstamjólk næringalega séð? Ég fer frá honum þegar hann verður 9 mánaða í 2 daga og var að hugsa hvort það sé sniðugur tími til að hætta brjóstagjöf? Ég verð kannski komin niður í eina gjöf þá. Svo er eitt sem ég var að pæla í en það er með brennslutöflur. Hvað tekur það langan tíma að fara úr mjólkinni?

Kær kveðja.

 


Sæl og blessuð!

Það er gott hvað brjóstagjöfin er búin að ganga vel en það er ekki tímabært að hætta ef þú ert í vafa. Þá er nokkuð víst að þú myndir sjá eftir því. Það þarf ekki að merkja að hann hafi lítinn áhuga þótt hann sýni hann ekki. Hann er jú vanur að þú bjóðir brjóstið. Brjóstamjólkin er góð næringarlega séð eins lengi og börn halda áfram. Þegar kemur að fjarverunni skaltu hugsa málið aftur. Ef þú verður viss í þinni sök þá, er kannski kominn rétti tíminn.

Það þarf ekki að hafa áhyggjur af efni brennslutaflna í brjóstamjólk heldur frekar af áhrifum þeirra á eigin líkama. Því er mikilvægt að taka þær í miklu hófi.

 Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. mars 2009