Að hætta brjóstagjöf

01.06.2014
Góðan daginn!

Mig langar að vita hvernig ég minnka mjólkina alveg? Var að hætta með stelpuna á brjósti og allir segja mismunandi hluti. Tæma brjóstin og vera svo í þröngum íþróttabrjóstahaldara eða hætta alveg að mjólka mig og hætta að gefa barninu og þá fer mjólkin. Eða mjólka rétt smá framan af þegar mér er illt eða fá þurrktöflur...veit ekki alveg hverju ég á að fara eftir?
 

Sæl og blessuð!

Því miður hefur þér láðst að segja hve gamalt barnið er og hversu mikla mjólk þú ert að framleiða. Það er nefnilega forsenda þess að gefa þér ráð við hæfi. Þeir sem eru að segja þér til geta allir haft rétt fyrir sér en forsendur þeirra eru mismunandi. Almenna reglan er sú að ef barnið er ungt (nokkurra daga eða vikna) og /eða framleiðsla mikil þá þarf meira átak til að hætta. Mjólka sig niður, þrengja að rennsli og slíkt. Ef hins vegar barnið er orðið nokkurra mánaða eða ára og búið að trappa niður framleiðslu að einhverju leyti þá þarf oft lítið átak til að hætta og stundum ekki neitt. Í mesta lagi er þá mjólkað örlítið til að bæta líðan ef brjóst verða þanin og til óþæginda. Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.


Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. júní 2014.