Spurt og svarað

28. ágúst 2006

Að hætta brjóstagjöf

Komið þið sælar kæru ljósmæður og þakkir fyrir þennan ómissandi vef, hann er búinn að vera mér mikil stoð og stytta undanfarin misseri. Ég á 7 mánaða dóttur og þarf að fara að venja hana af brjósti. Ég ætlaði mér að halda eftir tveimur gjöfum, kvölds og morgna en af óviðráðanlegum orsökum verð ég að hætta með hana alveg núna. Ég ætla samt ekki að gera það neitt ómanneskjulega hratt. En vandamálið er að hún drekkur enn svolítið oft, skilst mér, miðað við 7 mánaða barn. T.d. fær hún graut á kvöldin, milli 6 og 7 og vill svo fá sopa milli 8 og 9 þegar hún er að fara að sofa og þá sofnar hún við brjóstið. Stundum hef ég gefið henni brjóstið strax eftir kvöldgrautinn og þá drekkur hún ekki milli 8 og 9. Henni finnst greinilega mjög ljúft að sofna við brjóstið, en hún getur alveg sofnað án þess en kvartar aðeins eðlilega. Svo drekkur hún um miðnætti og um fjögurleytið á nóttunni og svo kl.7. Og ég spyr með allar þessar kvöld- og næturgjafir: Hvað á ég að gefa henni í staðinn? Ég hef verið að venja hana við stoðmjólk, en henni finnst hún svo ógeðsleg að hún kyngir ekki einu sinni. Þurrmjólk er ekkert betri. Ég geri mér grein fyrir að hún verður að venjast bragðinu af annarri mjólk, en er eina ráðið að gefa henni ekki neitt annað og kvelja hana á þann hátt? Eða er nóg að fá vatn á kvöldin og á nóttunni, eða eru þetta virkilegar máltíðir sem hún þarf á að halda?  Ég get ekki hugsað mér að slást við hana og pína ofan í hana stoðmjólk hálfsofandi. En hún drekkur vatn með bestu lyst. Mér var sagt í ungbarnaverndinni (þegar hún var 5 mánaða) að þessar tíðu kvöld- og næturgjafir væru bara græðgi og hún þyrfti ekkert frá svona 9 á kvöldin fram á morgun. En málið er að hún er virkilega að drekka, þetta er ekkert tutl hjá henni og þess vegna hef ég ekki sýnt henni þá grimmd (að mínu mati!) að taka þessar gjafir af henni strax. Kannski er sólarhringurinn viðsnúinn, að hún sé að nærast of mikið á röngum tíma, eða er hún bara þyrst?

Af ofangreindum ástæðum spyr ég helst ekki um þetta í  ungbarnaverndinni, en mig vantar sárlega ráð. Fyrirgefið svo langlokuna!

Bestu þakkir, Bella.Sæl og blessuð Bella.

Ég skil vel að það sé óþægilegt að fá þessi misvísandi ráð. En þér er alltaf óhætt að treysta á eigið innsæi. Þú þekkir þitt barn lang best og hefur tilfinningu fyrir hvað það vill. Þú veist náttúrlega hvað þú vilt og svo er að finna milliveginn þarna á milli. Þegar þú ert að velja hvaða leið er farin þá getur verið gott að fá góð ráð. Það getur meira að segja verið gott að fá mörg góð ráð og velja svo bara úr hvað ykkur hentar best. Hér á eftir kemur mín útgáfa af góðum ráðum. Samkvæmt upptalningunni ertu í 4 gjöfum á sólarhring. Þá er næsta skref að taka út eina af þessum gjöfum og láta líða nokkra daga með 3 gjöfum. Svo tekurðu aðra gjöf út og lætur líða nokkra daga o.s.frv. Þú þekkir þetta ábyggilega. Varðandi næringuna sem barnið fær í staðinn þá skiptir hún náttúrlega heilmiklu máli. Nú þarf barnið að fá öll næringarefni, vítamín og snefilefni úr matnum í staðinn fyrir úr brjóstamjólkinni. Því þarf fæðið að vera fjölbreytt og orkuríkt. Brjóstamjólk skiptist í vökva þ.e. vatn og næringarhlutann sem er matur. Þú passar upp á næringarhlutann með matnum og þar fyrir utan þarf barnið bara að fá vatn. Börn þurfa ekki á annarri mjólk að halda eftir að brjóstamjólkinni sleppir en auðvitað væri æskilegt að þú héldir einhverri brjóstamjólk inni (1 gjöf) eins lengi og þú getur. Það má vera hvaða gjöf sem þið eruð hrifnastar af. Ef það er næturgjöf þá er það bara í fínu lagi. Vona að þetta hjálpi.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. ágúst 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.