Að hætta brjóstagjöf fyrir sig

14.02.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Fyrirspurnin mín er kannski svolítið sérstæð en þannig er mál með vexti að ég er með 3 mánaða barn á brjósti sem dafnar alveg óskaplega vel. Hann drekkur og drekkur og ég á ekki í neinum vandræðum með að mjólka nóg ofan í hann. Hins vegar vantar talsvert upp á andlegu hliðina hjá mér varðandi brjóstagjöf. Á seinustu 2 árum er ég búin að eignast 2 börn og hafa þau bæði á brjósti. Ég uppgötvaði að ég væri ólétt af þessum rúmlega mánuði eftir að ég hætti með hinn á brjósti. Ég hef því nánast ekkert frí fengið síðan í september 2004. Ég veit að það hljómar eigingjarnt en ég er alveg komin með nóg af því að þurfa að deila mér og mínum líkama. Seinasta meðganga var mjög erfið líkamlega og mig vantar voðalega að ná að jafna mig. Þar að auki hef ég enga kynhvöt, aukakílóin sitja sem fastast og ég er að bögglast við að samræma vinnu og brjóstagjöf sem er mjög lýjandi. Því spyr ég ykkur hvort það sé algerlega rangt af mér að skipta yfir í þurrmjólk þar sem ég er sjálf komin með alveg nóg af þessu. Auðvitað vil ég barninu mínu allt það besta en ég er bara hrædd um að ég fari yfir um ef ég þarf að gera þetta mikið lengur. Hefur hann ekki nú þegar fengið að njóta góðra áhrifa af móðurmjólkinni sem hann mun búa að til framtíðar?

Kveðja, Ein eigingjörn.


Sælar!

Ég sé að þú ert búin að vera alveg einstaklega dugleg með öll börnin þín á brjósti. Drengurinn er búinn að ná því að vera fyrstu mánuði lífsins á brjósti svo það er ekkert athugavert við það að draga í land við brjóstagjöfina - sérstaklega þegar þú hefur ekki gert annað í svona langan tíma - þú átt mikið hrós skilið. Það verður alltaf að meta aðstæður og heilsu móður og barns í hvert sinn - hann býr örugglega vel af þeirri brjóstagjöf sem hann er búinn að fá. Ég held að það sé kominn tími á það að þú hugsir um þína heilsu núna.

Gangi þér vel.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. febrúar 2007.