Spurt og svarað

13. desember 2008

Að hætta með 2ja mánaða á brjósti

Sælar!

Ég er með svo langa vandamálasögu að ég veit ekki  hvar ég á að byrja. Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir tveimur mánuðum síðan. Vegna veikinda þurfti hann að fara í aðgerð strax eftir fæðinguna og var á vökudeild í viku. Hann dafnar vel og hefur þyngst vel. Eftir á að hyggja er ýmislegt sem betur hefði mátt fara á spítalanum. Mér leið afar illa eftir fæðinguna og átti erfitt með að tengjast barninu þar sem það var „tekið af mér“ strax eftir fæðinguna. Mér var sagt að ég mætti leggja hann á brjóst tveimur dögum eftir aðgerðina og var svo vitlaus að halda að ég hlyti nú að geta lagt hann á brjóst án hjálpar, enda var mér engin hjálp boðin á vökudeildinni. Fyrsta skiptið okkar gekk brösuglega og ég hélt áfram að mjólka mig á 3 tíma fresti. Næstu skipti gengu einnig illa og það var ekki fyrr en ljósmóðirin  úr heimaþjónustunni bauðst til að hitta okkur á vökudeildinni að þetta fór aðeins að ganga betur. Hún lagði til að ég prófaði að nota mexíkanahatt en hann var bæði búinn að fá snuð sem hann fékk innan við klst. eftir fæðinguna og pela. Ég komst upp á ágætislag með að nota hattinn. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta ágætlega í nokkra daga. Ég reyndi að sleppa hattinum en endaði alltaf með hann aftur eftir mikinn grát bæði hjá mér og stráknum. Mér leið ömurlega illa eftir að við komum heim og grét mikið og svaf nánast ekkert fyrstu 2-3 vikurnar og mitt andlega ástand var í rusli. Mér var sagt að þetta væri alveg eðlilegt „baby-blues“. Brjóstagjöfin hélt áfram að ganga illa. Ég byrjaði að telja niður dagana þangað til að ég gæti hætt með hann á brjósti og þessar hugsanir hafa látið mér líða eins og ég sé ömurlegasta móðir sem fundist hefur. Ég reyndi ótal aðferðir til að plata hann, sprautaði mjólk upp í hann meðfram brjóstinu og ýmislegt fleira. Svo  byrjaði ég að gefa honum ábót í pela. Hann er nánast alveg hættur að vilja sjúga brjóstið og fær núna bæði þurrmjólk og brjóstamjólk í pela. Mitt andlega ástand hefur spilað mikið inn í þetta. Ég fæ þó mikinn og góðan stuðning bæði frá manninum mínum og fjölskyldu. Við höfum ákveðið að ég hætti núna að berjast við brjóstagjöfina og fara að huga að andlegri og líkamlegri heilsu. Ég fékk ristil nýlega og hef ekki verið hraust vegna hans. Niðurstaðan er sú að ég er að reyna að hætta núna að mjólka mig og veit ekki alveg hvernig ég á að fara að því. Ég er að mjólka mig núna 3 sinnum á dag. Þyrfti ég kannski þurrktöflur til að hjálpa mér? Vona að þið skiljið mig.

Með fyrirfram þökk og þökkum fyrir gagnlega síðu.


Sæl og blessuð!

Þú ert greinilega búin að lenda í ótrúlega erfiðri brjóstagjöf og óskandi að engin þyrfti að lenda í viðlíka reynslu. Það er ekki hægt að leggja nógu ríka áherslu á hve mikilvægt er að konur fái bæði góða fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngu og aðstoð á fyrstu vikunum í samræmi við aðstæður.

Mér finnst ótrúlegt hvað þú ert búin að leggja á þig mikla vinnu til að reyna að láta þetta ganga nánast upp á þitt einsdæmi og skil vel að nú finnist þér nóg komið.

Ég er ekki viss um að þurrktöflur geti hjálpað þér einar og sér. Það er mildari leið að hætta rólega og leyfa líkamanum að aðlagast jafnóðum. Þá byrjarðu á að mjólka tvisvar á dag í 3-4 daga. Svo mjólkar þú þig einu sinni á dag í 2-3 daga. Svo annan hvern dag í 2 skipti. Svo hættir þú. Ef brjóstin verða spennt geturðu tekið þig til og mjólkað örlítið til að minnka spennuna en annars læturðu brjóstin vera sem mest í friði.

Vona að þetta gengi vel og vil nefna að ef um annað skipti verður að ræða þá fáirðu ráðgjöf strax á fyrri hluta meðgöngunnar.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. desember 2008.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.