Að mjólka sig

13.09.2005

Sælar ljósmæður.

Nú er ég að fara til útlanda í október og verð frá syni mínum í tvær nætur.  Hann verður rétt rúmlega 5 mánaða þá.  Ég ætla að mjólka fyrir hann í pela og allt í góðu með það.  En það sem ég er að pæla í er hvernig ég á að mjólka mig úti? Þ.e hversu oft á sólahring á ég að mjólka mig?  Ég veit ekki hvort það breytir einhverju en hann er hættur að drekka á næturnar - sefur bara á sínu græna.  Hann er annars að drekka á 2-3 tíma fresti.

Kveðja, tveggja barna móðir. 

.....................................

Sæl og blessuð. Þar sem þetta eru bara 2 dagar getur þú reynt að komast af með eins fáar mjaltir eins og hægt er.  Mér sýnist þú vera í fullri framleiðslu svo sennilega kemstu ekki af með færri en 4-5.  Þú þarft ekkert að vera að djöflast við að reyna að mjólka þar til allt er búið heldur hætta bara þegar flæðið fer að minnka verulega.  Ef svo skyldi fara að þú fyndir fyrir óþægindum eða þrota í brjóstunum geturðu alltaf skotið inn auka mjólkun.

Nei, það breytir engu að hann sefur á næturnar. Það þýðir bara aðra röðun á gjöfum.

Með bestu ósk um ánægjulega utanlandsferð.     

Katrín Edda Magnúsdóttir, l
jósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13.09.2005.