Spurt og svarað

18. janúar 2009

Að mjólka sig

Sælar kæru ljósmæður og takk fyrir frábæran vef!

Ég á hraustan dreng sem fæddist í september sl. og hefur frá fæðingu einungis fengið brjóstamjólk.Það hefur komið fyrir að ég hef skroppið frá og hann fengið frá pabba sínum það sem ég hef mjólkað. Hann tekur það vel og tók brjóstinu alveg jafn vel eftir það. Núna er ég að byrjuð aftur í skólanum og pabbi hans verður heima með hann þrjá morgna í viku. Það hefur gengið vel. Ég hef bara vaknað aðeins fyrr og mjólkað mig og hann drekkur. Það sem við vorum að velta fyrir okkur er hversu mikla áherslu við eigum að leggja á að hann fái bara brjóstamjólk. Mér finnst oft erfitt að mjólka mig og verð oft töluvert stressuð að ég mjólki ekki nóg. Ég er í burtu í ca. þrjá tíma og er hrædd um að ég gæti verið að minnka mjólkina með þessu. Ætti ég að taka pumpu með og pumpa mig í pásunum? Er "allt ónýtt" ef hann fær stundum þurrmjólk með þessu ef ég gæti ekki mjólkað mig einn daginn? Ég mjólka um 120 ml og skil eftir handa honum (ein gjöf). Er það nóg handa 7 kg. barni? Hann grætur sjaldan þannig að það er erfitt að sjá það á honum. Eins ráðlagði hjúkrunarfræðingur mér í 3ja mánaða skoðun að hann færi að fá graut núna "ef ég vildi halda brjóstagjöfinni lengi" eins og hún orðaði það. Samt er hann að þyngjast mjög vel. Er það eitthvað sem er rétt að börn sem fá mat fyrr með brjóstinu haldist lengur á brjósti? Afsakið hvað þetta er ruglingslegt. Vona að þetta skiljist.

Bestu kveðjur . Skólamamman.


 

Sæl og blessuð Skólamamma.

Þú virðist hafa fundið frábært kerfi til að halda brjóstagjöfinni með skólanum. Ég á von á að þetta geti gengið alveg áfram. Það er eðlilegt að stressa sig yfir að mjólka kannski ekki nóg eitthvert skiptið. Það gæti hjálpað þér að mjólka aukalega 1 eða 2 kvöld og eiga þá „varagjöf“ í frysti. Þá þarftu ekki að hafa áhyggjur þótt ein mjólkun gangi ekki. Ég tel ekki nauðsynlegt fyrir þig að fara að pumpa þig í 3ja tíma fjarveru. Það yrði bara aukalegt álag á þig. Magnið sem þú ert að mjólka er alveg nóg.

Já, þú átt að leggja áherslu á að hann fái bara brjóstamjólk þar til hann verður 6 mánaða. Og þið hjúkrunarfræðingurinn í 3ja mánaða skoðuninni hafið eitthvað misskilið hvor aðra því það er að sjálfsögðu alveg öfugt. Ef barn fær graut snemma aukast mjög líkur á að það verði styttra á brjósti.

Vona að það gangi svona vel hjá þér áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.