Spurt og svarað

05. mars 2011

Að pumpa ofurfullt brjóst

Sælar, takk fyrir góðan vef!
Barnið mitt (2,5 mán.) er farið að sofa 8 tíma samfellt yfir nóttina og hefur oftast drukkið af báðum brjóstum fyrir svefninn. Um morguninn eru bæði brjóstin mjög full og ég gef honum þá annað. Ég hef pumpað hitt brjóstið (það sem er "fyllra" og fylli auðveldlega 150 ml. á 5 mínútum) og sett mjólkina í frysti til að eiga. Þetta hef ég gert því ég get ekki beðið 2-3 tíma til viðbótar. Ég gef barninu svo yfirleitt brjóstið sem ég pumpaði um 2 tímum síðar. Á ég ekki að reyna að hætta þessu? Brjóstið hlýtur smám saman að venjast því að vera ekki tæmt svona lengi. Hvernig mælið þið með að ég beri mig að? Það eru smá vandræði með gjafir. Ég held að barnið gleypi mjög mikið loft og hann gubbar ótrúlega mikið (t.d. góðar þrjár gusur í lok gjafar, þrátt fyrir að vera tekinn af snemma í gjöf til að ropa). Þess vegna finnst mér vont að gefa honum svona svakalega fullt brjóst.
 Með fyrirfram þökk.

 
Sæl og blessuð!
Þú ert trúlega að framleiða talsvert mikla mjólk þannig að það er spurning hvort þú þarft að tempra hana eitthvað smávegis. Með því að pumpa brjóst á hverjum degi er verið að hvetja til meiri framleiðslu. Það er líklega ekki eitthvað sem þú þarft á að halda. En hún er erfið þessi líðan þegar brjóst eru mjög þanin á morgnana. Það sem ég ráðlegg er að þú gefir barninu bæði brjóst að morgni. Þú þarft þá að passa að það taki ekki of lengi fyrra brjóstið. Þá ertu búin að fá svolítinn létti á bæði brjóst og líðan bærileg. Aðrar gjafir eru bara af öðru brjósti og svo gætirðu þess að stoppa allan mjólkurleka. Það gæti tekið þig alveg viku eða meira að tempra framleiðsluna nægilega til að þetta fari að ganga betur en það kemur.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. mars 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.