Spurt og svarað

08. maí 2008

Að safna brjóstamjólk

Ég er nýbökuð mamma tveggja mánaða barns og gengur allt mjög vel.  Barnið er eingöngu á brjósti og þyngist og dafnar vel.  Brjóstagjöfin hefur allan tímann gengið mjög vel og er ætlunin að hafa barnið eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuðina. Það sem mig langar að spyrja um er að þegar barnið drekkur þá lekur yfirleitt talsvert mikið úr hinu brjóstinu  (nánast alltaf er það bara annað brjóstið sem barnið drekkur í hverri gjöf). Ég hef oft safnað þessari mjólk og suma daga eru þetta 100-150 ml. sem ég hef sett í frystinn og geymt.  Mér finnst upplýsingar varðandi þetta vera nokkuð misvísandi, þó sá ég í svari við annarri fyrirspurn hér á síðunni að ekki sé mælt með að geyma þessa mjólk til að gefa þegar móðirin þarf að fara frá barninu þar sem þetta sé bara formjólk. Einu sinni hefur barnið fengið svona mjólk í pela hjá pabba sínum þegar ég þurfti að fara frá og það gekk mjög vel og engin neikvæð áhrif sjáanleg. Það er fyrirliggjandi að ég mun á tímabili þurfa að fara nokkuð frá barninu áður en að það verður 6 mánaða og verður það hjá pabba sínum á meðan, þannig að mig langar að fá betri upplýsingar um þetta. Ég veit ekki hvort að það er eitthvað að marka það en þessi mjólk sem ég hef verið að safna lítur alls ekki út fyrir að vera nein undanrenna eða þannig, áferðin á henni minnir frekar á létt- eða nýmjólk ef það segir eitthvað. Getið þið gefið mér betri upplýsingar um þetta og þá ráð um hvernig best sé að bera sig að við að eignast forða til að ganga á þegar ég þarf að vera í burtu.  Á ég kannski ekkert að vera að eyða tíma og fyrirhöfn (sem ekki er mikil reyndar) í að safna þessari mjólk sem lekur?  Mér finnst það alltaf vera hálfgerð sóun þegar ég helli þessu í vaskinn

 Með þökkum fyrir frábæra síðu sem hefur gagnast okkur foreldrunum mikið í nýjum hlutverkum.

Nýbökuð mamma.


Sæl og blessuð nýbakaða mamma.

Til hamingju með brjóstagjöfina sem gengur svona vel. Það er rétt sem þú hefur lesið þér til að það yfirleitt ekki mælt með að safna mjólk á þennan hátt. Þetta er að megninu til formjólk sem lekur og hún er í sjálfu sér allt í lagi endrum og sinnum en dugar sennilega ekki ef að gefa á reglulega x 1 á dag eða annan hvern dag eða eitthvað í þá veru. Það er alltaf reynt að kenna mæðrum að stöðva svona leka með dyrabjölluaðferðinni. Bæði til að hafa betri stjórn á mjólkurframleiðslunni, gera mjólkina næringarríkari og losna við sóðaskap. Það er þó konum í sjálfsvald sett hvernig þær vilja hafa þetta. Sumar vilja hafa þennan leka og jafnvel hvetja hann. Sumar vilja safna mjólk á þennan hátt og gefa barninu og eins og ég segi þá ráða þær því. Hjá sumum virðist þetta ekki trufla brjóstagjöfina og hjá öðrum truflar það hana mikið þannig að þetta er svolítið einstaklingsbundið. Litur mjólkurinnar skiptir ekki máli en ég er sammála þér í að það er alltaf sárt að hella móðurmjólk hvort sem hún heitir formjólk eða eftirmjólk.

Gangi þér vel áfram.                
          

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.