Spurt og svarað

22. nóvember 2007

Að tæma brjóstið

Ég á dóttur sem er vikugömul.  Hún tekur bara annað brjóstið í einu, sem ég er ekki vön með hin börnin.  Hún tekur þó stundum bæði.  Mér finnst hún ekki alltaf ná að tæma brjóstið alveg, en er þó ekki alveg viss.  Nú fékk ég sýkingu og hnút í brjóstið í gær og er komin á sýklalyf.  Ég hef svo miklar áhyggjur af því að með því að klára ekki úr brjóstinu gæti það valdið fleiri hnútum.  Er það möguleiki?  Einhvers staðar á síðunni las ég að brjóstið framleiðir miðað við hvað barnið drekkur, þannig að ef hún klárar ekki, þá framleiðir það minna fyrir næstu gjöf sem hún myndi þá kannski klára?
Þarf ég þá ekki að hafa áhyggjur?

Bestu þakkir.


 
Sæl og blessuð.

Varðandi brjóstagjöf vil ég ekki tala um að tæma eitt né neitt. Það er stundum talað um að brjóst séu vel eða illa sogin. Það mætti kannski segja að það myndist síst hnútar eða stíflur í brjóstum sem eru alltaf vel sogin. Það er hins vegar ekki hægt að tryggja það hjá neinu barni. Þau sjúga alltaf misvel eftir gjafamynstri, dögum, eða skapi. Þess vegna er svo mikilvægt að leyfa þeim að sjúga eftir eigin þörfum því þá sjúga þau best. Þau geta hins vegar verið að sjúga betur úr einum hluta brjóstsins en öðrum. Því er mikilvægt að nota breytilegar gjafastellingar, passa að ekkert þrengi að brjóstunum og slaka vel á í gjöfum. Þannig er stuðlað að því að barnið sjúgi brjóstið sem best. Þegar barnið hefur lokið gjöfinni hættir framleiðsla mjólkurinnar þannig að það verður ekkert eftir í þeim skilningi. Brjóstið er látið alveg eiga sig og það myndast ekki hnútar nema barnið sé endurtekið í vandræðum með að sjúga úr sama hluta brjóstsins.

Það er líka ekki oft sem sýkingar myndast í hnútum eða stíflum en það gerist helst ef sár eru á vörtum og þar opin leið fyrir bakteríur inn í brjóstið. Því er hægt að koma í veg fyrir brjóstasýkingar og sýklalyfjagjafir með því að halda sárunum hreinum eða að passa að ekki komi sár.

Þannig að Nei, það er ekki hætta á fleiri hnútum nema barnið sé að sjúga óeðlilega illa eða utanaðkomandi þættir séu að trufla ykkur.

Vona að vel gangi.          

Katrín Edda Magnúsdóttir,
brjóstagjafaráðgjafi
 og ljósmóðir. 
22.11.2007

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.