Að trappa niður brjóstagjöf

09.01.2007

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef. Ég kíki á síðuna á hverjum degi og hún hefur gagnast mér mjög vel :)

Brjóstagjöfin fór illa af stað en með góðri hjálpa frá brjóstagjafaráðgjafa (Katrínu Eddu) þá hefur hún gengið eins og í sögu eftir byrjunarörðuleikana. Stelpan mín var t.d. eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. Núna er stelpan mín rúmlega átta mánaða og drekkur hún þrjár gjafir á sólarhring. Stefnan er að vera með hana á brjósti í ár. Ég var að spá að taka eina gjöf út þegar hún verður níu mánaða og svo aðra þegar hún er tíu mánaða. Stefnan er svo að halda morgungjöfinni í tvo mánuði eða þar til hún verður eins árs. Ég fór svo allt í einu að hugsa hvort maður geti haldið einni gjöf svona lengi. Hvort að mjólkin gæti bara horfið? Það gæti líka farið svo að ég tími ekki að hætta með hana á brjósti þegar hún verður eins árs og vill kannski halda brjóstagjöfinni áfram. En ég veit líka að það er mikilvægt að trappa brjóstagjöfina niður smá saman. Láta líða tíma þar til maður tekur næstu gjöf út, ekki satt?

Með von um svör við þessum pælingum.

Kveðja! :)


Sæl og blessuð.

Til hamingju með hve brjóstagjöfin hefur gengið vel. Það er oft svo að mæður ljúka brjóstagjöfinni hver eftir sínu nefi og það er ágætt. Mér finnst þín tillaga fín. Ef hún hentar þér þá er það aðalatriðið. Ég vona bara að þú gerir þér grein fyrir því að það er ekki víst að sú stutta sé sammála. Það er gjarnan búið að gera flott plön sem börnin eiga svo tiltölulega auðvelt með að kollvarpa. Þegar þau eru orðin þetta gömul fara flestar breytingar fram með þeirra samþykki, við kröftug mótmæli eða er breytt á einhvern hátt. Það er ekkert mál að halda brjóstagjöfinni áfram á einni gjöf. Þannig er hægt að halda áfram eins lengi og báðir aðilar óska.

Vona að gangi svona vel áfram.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. janúar 2007.