Spurt og svarað

05. október 2021

Pumpa og geyma

Góðan dag, Takk fyrir alveg frábæran vef. Ég á einn tæplega 7 vikna sem þyngist og dafnar vel og er eingöngu á brjósti. Hann sefur í 3-4 tíma í hádeginu, mér er sagt að það sé bara í lagi, og 5-6 tíma á nóttunni (ásamt styttri lúrum á daginn). Ég er hrædd um að missa mjólkina eitthvað sérstaklega í þessum langa hádegislúr og vil því pumpa mig þar á milli, einnig er mér illt i brjóstunum á þessum tíma og finnst ég þurfa að tæma þau. Svo vil ég líka pumpa og geyma mjólk sem hægt er að nýta ef ég skrepp frá eða eftir að ég sný til vinnu á ný þannig mér finnst þetta vera tækifæri til að byrja á því. Eru einhverjar leiðbeiningar/viðmið um að pumpa sig og vera með barn á brjósti? Er einhver gróf stundatafla eða ætti ég bara að pumpa einu sinni í hádegislúrnum? Má pabbinn gefa pela (með brjóstamjólk) þó að mamman sé heima (kannski fyrir nóttina t.d.)? Er illa séð eða vandamál fyrir barnið að fá bæði brjóst og pela? Kær kveðja, Pumpa

Sæl, ég veit ekki til þess að það sé til nein sérstök tímatafla í sambandi við pumpun samhliða brjóstagjöf, en eins og þú segir er gott viðmið að pumpa ef þér líður orðið illa í brjóstunum og barnið er sofandi.

Pabbinn má endilega gefa pela fyrir nóttina ef það hentar ykkur, það er ekkert rétt eða rangt í þessu, þið spilið þetta bara eftir því hvað hentar ykkur og barninu ykkar. Það sem þú þarft að passa þegar barnið fær pela, er að þú mjólkir þig á móti til að viðhalda framleiðslunni og koma í veg fyrir stíflur. Einnig að pelastúturinn sé ekki of stór þannig að það sturtist ekki ofan í barnið, það er góð regla að halda á pelanum lágrétt svo að barnið þurfi að hafa fyrir því að sjúga úr pelanum eins og það sýgur úr brjóstinu.

Það er bara fínt fyrir barnið að fá brjóstamjólk úr pela nokkuð reglulega til að viðhalda þeirri færni að drekka úr pela samhliða brjóstagjöfinni, ef barnið skyldi þurfa að drekka þegar þú ert ekki heima. Þannig að það er ekki vandamál að barnið fái brjóst og pela, svo lengi sem það hentar ykkur og barninu ykkar. Gangi ykkur vel!

Kær kveðja, Hafdís Guðnadóttir, ljósmóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.