Spurt og svarað

09. mars 2005

Að venja af brjósti

Hæ, hæ, ljósmóðir!

Ég er í smá vandræðum með að venja stelpuna mín af brjósti, hún er rúmlega 7 mánaða og ég er að reyna að minnka brjóstagjöfina og fara að gefa henni bara á kvöldin og á morgnana en það er sama hvað ég reyni hún vill ekkert annað drekka nema ég bjóði henni ávaxtasafa úr pela.  Hún vill enga mjólk en hefur einstaka sinnum þegið vatn eftir að vera búin að borða. Hún er farin að borða fjórum sinnum á dag og ég bara þori ekki að taka af henni brjóstið fyrr en hún er farin að drekka eitthvað annað. Ég vildi bara spyrja hvort mér væri óhætt að loka mjólkurbúinu ef hún drekkur ekki mjólk? Á hún ekki eftir að gera það á endanum þegar hún sér að hún fær ekkert frá mér.

.................................................................

Sæl og blessuð.

Það hljómar nú eins og þetta gangi bara bærilega hjá þér að venja stúlkuna af brjósti. Hún tekur greinilega við annarri fæðu og hún er til í að drekka vatn og safa. Hún þarf ekki meira. Það er fjöldi barna sem vill ekki sjá kúamjólk og finnst hún verulega vond (sem hún er reyndar miðað við brjóstamjólk). Það gerir þeim ekkert til. Hún fær þau efni sem hún þarf úr þessum 2-3 gjöfum hjá þér á dag. Þú þarft svo ekkert endilega búast við því að hún taki kúamjólk í sátt þegar þú hættir alveg með hana á brjósti sem gerir heldur ekkert til. Kalk getur hún fengið úr káli og osti svo dæmi sé tekið. Mörg börn byrja að drekka kúamjólk seinna, einhvern tíma á 2. eða 3. árinu en það sem ég er að reyna að benda þér á er að þú þarft alls ekki að leggja neina ofuráherslu á kúamjólkurdrykkju. Það eru skiptar skoðanir á því hversu holl hún er, en nauðsynleg er hún alls ekki.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.