Spurt og svarað

07. ágúst 2006

Að venja af brjósti 18 mánaða

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Prinsessan mín sem er 18 mánaða og er enn á brjósti og ég er farin að hafa áhyggjur af því að venja hana af brjóstinu.  Ég er að fara í kvöldskóla og hún sofnar ALLTAF á brjósti. Ég veit ekki hvernig er best að fara að því að venja hana af því að mér finnst hún svo háð ennþá og er bara á brjósti eins og hún vill þegar henni hentar. Hún bara ræður í rauninni.
Svo er það annað sem er að naga mig og það eru svipirnir og augnráðin ásamt fáfræði ef það má kalla en það eru allir að segja mér að venja hana af brjósti því  hún er orðin svo stór.  Þegar hún var lítil voru allir að alltaf að segja hvað er gott að hafa börn á brjósti og að það geri þeim svo gott en svo núna er eins og það sé hreinlega skaðlegt fyrir hana það er svo mikið röflað yfir að ég sé enn með hana á brjósti.
Ég á prins sem ég var með á brjósti í 13 mánuði og þá hætti vegna áreitis frá öllum í kringum mig.  Ég ákvað að ég mundi hafa hana á brjósti þar til ég sjálf og hún ákvæðum þetta í sátt og samlyndi en ég veit ekki hvernig ég á að fara að því afþví að hún sofnar alltaf á brjóstinu og ég vorkenni henni svo að fara að taka brjóstið af henni afþví að hún hefur aldrei tekið snuð heldur.
Öll ráð vel þegin og svo finst mér að það mætti aðeins reyna að breyta viðhorfi fólks gagnvart ílengdri brjóstagjöf, allir rosalega fyrir brjóstagjöf fram að 12 mánaða og allt eftir það er bara TABU...
Jæja takk aftur öll ráð vel þegin

Kveðja Þórunn


Sæl og blessuð Þórunn.

Það er auðvitað svolítið annað að venja 18 mánaða barn af brjósti heldur en nokkurra vikna barn. Þegar um eldri börn er að ræða verður að vera meiri samvinna milli móður og barns og einnig annarra fjölskyldumeðlima. Það getur reynt virkilega á lagni og úrræðasemi móður. Eins og ég hef nefnt áður geta börn mótmælt mjög kröftuglega ef þau eru ekki tilbúin til að hætta ákveðinni gjöf.  Það getur eins átt við 18 mánaða barn þótt það sé nú ólíklegra. Þau geta hætt ákveðinni gjöf við réttar aðstæður á tiltölulega auðveldan hátt. Samvinnan er yfirleitt fólgin í því að þau verða að fá eitthvað í staðinn fyrir gjöfina sem dettur út. Það er að segja það verður að gera eitthvað til að dreifa huga barnsins á þeim tíma sem þessi gjöf fór fram. Ég nefni sem dæmi að það sé lesið fyrir fyrir barnið, sungið, byrjað á nýjum "leik", skoðaðar myndir eða eitthvað í þeim dúr. Það má bjóða vatn að drekka eða eitthvað annað. Sumum finnst gott ráð að passa að hafa barnið alltaf í andlitshæð við sig en láta það aldrei síga niður í "brjóstahæð". Það verða alltaf einhver mótmæli hjá þetta gömlu barni en það er um að gera að finna réttu aðferðina til vinna úr því.
Varðandi hitt vandamálið sem þú nefnir þá er úr vöndu að ráða. Það er ekki nóg með að sumt fólk sé fáfrótt og einstrengingslegt varðandi brjóstagjöf eftir 6-12 mánuði heldur getur það ekki látið annað fólk í friði með það. Það þarf sífellt að þröngva sínum skoðunum upp á mæður , láta þeim líða illa og skapa óþægilegt andrúmsloft. Þetta eru viðbrögð ekki ósvipuð og hjá öfgaskoðanafólki og meginþorri fólks á mjög erfitt með að skilja svona viðhorf. Hvað vakir fyrir þeim? Heldur það virkilega innst í hjarta sínu að það sé að gera eitthvað gott? Ég veit það ekki, ég held samt ekki.
Oftast ráðleggur maður mæðrum að hunsa þetta fólk, ekki svara því og reyna að gleyma því sem það sagði. En það er alveg rétt hjá þér, það þarf að reyna að breyta þessu viðhorfi. Að mínu mati er það fyrst og fremst hlutverk heilbrigðisstarfsfólks að vera í fararbroddi með rétt heilbrigðisviðhorf en það hjálpar líka geysimikið ef mæður út í bæ eru duglegar að upplýsa það fólk sem er mótttækilegt fyrir fræðslu (það eru ekki allir, því miður).

Vona að þessi svör hjálpi eitthvað.

 

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.