Spurt og svarað

10. júní 2009

Að venja barn af hatti

Ég á 7 vikna dóttur. Þegar hún fæddist var eins og hún kynni ekki eða vildi ekki sjúga (ljósurnar margtóku það fram að það væri ekkert að geirvörtunum hjá mér). Hún tók brjóstið ekki fyrr en ein ljósan prófaði að setja pelatúttu á brjóstið. Hún saug svoleiðis  þar til ljósunni tókst að láta hana taka hattinn í staðinn. Henni tókst aldrei að taka brjóstið meðan ljósan kom heim. Ljósan sagði við okkur að stelpan gæti þetta alveg, við þyrftum bara að halda áfram að reyna. Við höfum reynt af og til og oft sýgur hún svona einu sinni til tvisvar áður en hún  sleppir. Okkur tókst samt um daginn að láta hana drekka tvær gjafir bara af brjóstinu (hún þurfti samt að byrja með hattinum), en síðan var allt búið. Þetta var þegar hún var um 5 vikna. Eftir að okkur hafði tekist þetta var mér bent á að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa. Ég hringdi, en hún hafði ekki tíma til að taka á móti okkur en sagði að það gengi ekki að láta barnið alltaf drekka með hattinum og ég þyrfti bara að "halda áfram að reyna". Ég reyndi nokkrum sinnum , en gafst upp þar sem það tók svo mikið á að hlusta á hana gráta. Andlega hliðin hjá mér hefur verið nokkuð góð eftir fæðingu, nema þegar kemur að brjóstagjöfinni. Um leið og ég fer að hugsa um hana verð ég niðurdregin. Og ég verð bara að segja að "halda áfram að reyna" er ekki mikil hjálp, þegar barnið bara reiðist og grætur þegar það fær ekki að borða. Og þegar hún nær að sjúga vörtuna upp í sig grettir hún sig og sleppir. Hún var vigtuð 7 vikna, og var búin að þyngjast um 930 gr. frá fæðingarþyngd. Henni virðist nægja að drekka annað brjóstið í einu.Hvernig er hægt að hjálpa litlu stelpunni minni að læra að drekka af brjósti? Ég er hálf hrædd við að hringja aftur í brjóstagjafaráðgjafann vegna þess að ég hálfpartinn gafst bara upp á að "halda áfram að reyna" án þess að vita hvað ég átti að reyna. Þetta með hattinn er farið að hefta okkur svolítið. Mér líður ekki vel með að gefa henni brjóst annars staðar en heima og mér finnst ég ekki vera að standa mig sem mamma að hafa ekki getað kennt henni að drekka af vörtunni. Mér finnst ég vera eina konan sem gef barninu mínu brjóst með svona hjálpartæki og það leggst þungt á mig. Plís, getið þið gefið mér einhver ráð? Mig langar svo að við mæðgur getum lært þetta.

 


Sæl og blessuð!

Það er leiðinlegt til þess að vita að brjóstagjöfin þín hafi verið svona erfið en um leið aðdáunarvert að þú haldir enn áfram. Það er ekki hægt að fullyrða að það sé hægt að laga ástandið. Það er svo langur tími liðinn. Mistökin urðu þegar pelatúttan var sett á brjóstið. Þá var barnið þvingað til að hreyfa munn og tungu á annan hátt en við brjóstasog. Hatturinn örvaði ennfremur þetta ranga sog. Núna þegar varta kemur í munninn og barnið notar sogið sem það kann þá kemur ekkert úr vörtunni svo það er ekki að undra þótt það reiðist. Öll börn fæðast með innbyggt rétt sog þannig að ef mistök verða þá er reynt á fyrstu vikunum að kalla aftur fram þetta rétta sog. Oftast tekst það. En því lengri tími sem líður í röngu sogi því erfiðara verður að kalla fram þetta rétta sog.

 En það er allt hægt. Það þarf að kenna þér ýms atriði varðandi stellingar, stuðning og handtök sem gætu hjálpað. Svo þarftu að læra að sogþjálfa barnið á réttan hátt. Þú gætir líka þurft að mjalta þig í nokkra daga. Afgangurinn er vinna hjá þér og barninu en þú þarft eftirfylgni í 1-2 vikur. Ég mæli með því að þú hafir aftur samband við brjóstagjafaráðgjafann þar sem það er sennilega eini staðurinn sem kennir þetta og getur fylgt eftir. Endilega gefðu þessu einn góðan sjéns.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. júní 2009

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.