Spurt og svarað

11. nóvember 2007

Að venja tveggja ára af brjósti

Heilar og sælar!

Sonur minn er að verða tveggja ára, enn á brjósti og sýnir ekki merki þess að vilja hætta í bráð. Hann fær brjóst kvölds og morgna og auk þess oftast þegar hann kemur heim úr leikskóla síðdegis. Okkur mæðginum finnst þessar brjóstastundir afar notalegar, njótum þeirra bæði. Hann er mjög virkur drengur, alltaf á fullu og slakar sjaldan á nema á brjóstinu. Ég er farin að huga að því að hætta brjóstagjöfinni. Aðallega vegna þess að hann saknar mín mjög þegar ég er fjarri, ég stefni að utanlandsferð eftir tvo mánuði og vil helst að honum líði sem best á meðan ég er í burtu. Held að það sé betra að hann sé vaninn af brjósti þá. Helst hefði ég viljað að hann hætti sjálfur, en mér sýnist það ekki gerast í bráð. Eigið þið ráð í pokahorninu um það hvernig best sé að venja svona stórt barn af brjósti án þess að því líði illa, sem sagt á sem mildastan máta?

Bestu kveðjur.



Sæl og blessuð!

Það er reyndar mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverju barni þegar þau eru komin á þennan aldur. Notaðu endilega þau ráð sem að þú heldur að virki á þennan strák. Hér er ein tillaga. Fyrst velurðu hvora gjöfina þú ætlar að taka út fyrst. Það væri væntanlega sú sem er aðeins minna uppáhalds. Leyfa honum að halda mest uppáhaldsgjöfinni lengst. Síðan reynirðu að undirbúa ykkur þannig að eitthvað skemmtilegt gerist á þeim tíma sem þessi gjöf fer vanalega fram á. Það gæti verið nýr leikur, nýtt leikfang, máltíð,söngur, gönguferð eða eitthvað sem þú veist að honum myndi finnast skemmtilegt og dreifði huga hans. Þegar síðan tíminn sem gjöfin fór fram á er liðinn og vel það, er bara tekið til við það sem venjulega kom á eftir eins og ekkert hafi í skorist.  Það geta auðvitað komið fram mótmæli en ef þau eru væg lætur þú þig hafa þau. Þau hætta yfirleitt eftir örfáa daga. Vona að þú hafir fengið eitthvað sem hjálpar.  


Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.

 





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.