Spurt og svarað

22. nóvember 2021

Járnskortur og blóðleysi

Sæl. Ég er komin 29 v og fór í blóðprufu útaf lágu hb og mældist 103 í hb í prufunni. Hvað þýðir það? Veit að það er betra að vera um 120 en er eitthvað gert við því? Tek járn og fjölvítamín sprey daglega. 

Sæl, 

Skimað er fyrir blóðleysi í meðgönguvernd. Blóðleysi er þegar líkamann skortir rauð blóðkorn, blóðrauði er prótein sem er á rauðum blóðkornum (hemoglobin sem er oft skammstaðaf hb eða hgb). Blóðrauði flytur súrefni milli staða í líkamanum okkar. Ef það verður skortur á rauðum blóðkornum getum við fundið fyrir þreytu, mæði og slappleika

 Á meðgöngu eykst blóðrúmmal líkamans og jafnfram verður aukning á rauðum blóðkornum en ekki jafnt við rúmmálið. Við þessa þynningu er eðlilegt að lækka eitthvað í gildum og þarf ekki alltaf meðhöndlun.Talið er eðlilegt að það sé >105 g/L á þessum tíma meðgöngunnar sem þú ert á en >110 g/L á fyrsta hluta hennar.

Skortur á rauðum blóðkornum getur orðið vegna lítillar framleiðslu á þeim eða vegna taps á þeim. Til þess að líkaminn geti framleitt rauð blóðkorn þarf að vera til staðar járn, B-12 og fólínsýra í líkamanum. Algengast er að það sé að völdum járnskorts en getur einnig stafað af skorti á B-12 og fólínsýru. Einnig verður aukin járnþörf á meðgöngu. 

Ráðlagt er að taka inn járn við blóðleysi líkt og þú ert að gera og er því fylgt áfram eftir í meðgönguvernd hvort það beri árangur. Það er gott að taka C-vítamín með en það aðstoðar líkamann í upptöku járns. Mjólkurvörur hindra upptöku og því er mikilvægt að neyta ekki þeirra á sama tíma og tekið er inn járn. Einnig eru ýmis matur sem járnríkur líkt og græn grænmeti, morgunkorn, kjöt, blóðmör og fleira. 

Gangi þér vel

Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.