Spurt og svarað

01. mars 2006

Að þurrka upp mjólkina í brjóstunum

Sælar!

Jæja nú er ég búin að eignast mitt annað barn, hún er vikugömul í dag:) Ég var búin að ákveða að ég ætlaði ekki að hafa barnið á brjósti, vegna þess að fyrri reynsla af brjóstagjöf er mjög slæm. Á spítalanum voru ljósmæðurnar óðar í að láta mig setja barnið á brjóst og ætluðu sko aldeilis að kenna mér að gera þetta rétt. En það tókst samt ekki og blessað barnið tók alltaf vitlaust brjóstið sama hvað þær reyndu að gera, á endanum nennti ég þessu ekki og stytti því sængurlegu mína. Ég gerði nokkrar tilraunir til að setja barnið á brjóst því ég hugsaði með mér að kannski bara gæti þetta tekist núna, en það reyndist nú ekki vera raunin og ég komin með blóðug sár á vörturnar, gat ekki einu sinni pumpað mig því það kom bara blóð í mjólkina. Þannig að ég ákvað að hætta þessu og gefa barninu bara þurrmjólk, sem hefur gengið mjög vel.

En ég fór til læknis í gær og bað um að fá svona pillur til að þurrka upp mjólkina í brjóstunum á mér. Það var ekkert mál og ég fékk pillurnar. En ég sagði lækninum að stelpan hefði aðeins sogið og náð að örva upp mjólkurkirtlana og því væri ég með stífluð brjóst, get ekki losað stíflurnar, og ég spurði hann hvernig þetta mundi virka þegar ég væri með brjóstin stífluð af mjólk.Hann sagði mér bara að taka þessar pillur og ekkert meira. En ég er núna með stútfull brjóst, get ekki með nokkru móti losað mjólkina, er búin að prófa að pumpa mig til blóðs en allt kemur fyrir ekki, stíflurnar losna ekki, en læknirinn sagði að ég ætti að taka pillurnar samt sem áður. En ég er að spá hefði ég kannski þurft að vera með alveg tóm brjóst áður en ég byrjaði að taka pillurnar eða hvað?Ég veit ekki hvernig ég get losað stíflurnar, er búin að prófa öll ráð sem ég hef fundið en það gerist ekkert og ég er mjög þrútin og með mikla verki í brjóstunum:( Ég byrjaði að taka pillurnar í gær. Hvernig get ég losað mjólkina sem er stífluð í brjóstunum á mér?

Fyrirgefið hvað þetta er löng fyrirspurn en ég er bara í þvílíkum vandræðum með þetta og líður frekar illa af þessum verkjum.

..............................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er erfitt að þurfa að lenda í slíkum erfiðleikum aftur. Það er virðingarvert hjá þér að reyna aftur og rétt hjá ljósmæðrunum að oftast tekst þetta í annað eða þriðja sinn en því miður gekk það ekki þannig núna. Það er líka slæmt að þegar þú hefur tekið þessa ákvörðun um að hætta skuli það líka ganga svona illa. Það er aldrei mælt með því að hætta mjög snögglega svo fljótt eftir fæðingu ef mögulega er hægt að komast hjá því. Pillurnar hjálpa voða lítið á þessum tíma ef önnur ráð vantar. Það er reyndar erfitt að átta sig á hvað eru stíflur og hvað eru eðlileg afvenjunarviðbrögð brjóstanna. Þau verða hörð, þrútin og hnúskótt við það að hætta snögglega mjólkurframleiðslu. Það þarf ekki að þýða að það sé mikil mjólk í þeim heldur eru það breytingar inni í brjóstunum sem þurfa bara sinn tíma til að ganga yfir. Þeim fylgja óþægindi en það er ekki hætta á sýkingum eða öðrum vandræðum. Nú varstu reyndar með sár á vörtunum þannig að kannski hefurðu verið búin að fá sýkingu áður en þú tókst ákvörðunina um að hætta. Þá ættirðu að hafa fengið hita og roða líka.

Ráðið sem ég get gefið þér er að reyna að mjólka eitthvað smávegis einu sinni til tvisvar á dag. Ekki reyna að mjólka lengi eða mikið heldur bara þangað til að þú finnur einhverja breytingu til batnaðar. Smá létti eða mýkingu. Þetta geturðu gert í 2-4 daga. Þá ferðu í að mjólka annan hvern dag nokkrum sinnum og svo hættirðu. það er engin hætta á að þú lokir neina mjólk inni, þetta virkar ekki þannig. Ef þér finnst ástandið ekkert skána á nokkrum dögum þarftu að fá skoðun á brjóstunum til að athuga hvort um sýkingu er að ræða. Þannig að þegar upp er staðið hefðirðu getað sleppt pillunum, fengið góða aðstoð við að hætta og losnað við öll óþægindin. En það er auðvitað auðvelt að vera vitur eftir á.  Ég vona bara að þessi ráð hjálpi og að þú leitir aðstoðar ef þú þarft.      

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.