Aðskilnaður eftir fæðingu og brjóstagjöf

06.10.2010

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er komin tæpar 40 vikur með annað barn og ætla mér að hafa það á brjósti. En þannig er að brjóstagjöf fyrsta barnsins gekk brösuglega og entist ekki nema í tæpa 2 mánuði. Ég og ljósan mín erum búin að fara yfir það ferli og stefnum að sigri núna :) Í fyrri fæðingu upplifði ég færibandavinnu á fæðingadeildinni og vil ekki gera það aftur. Samkvæmt öllu sem ég hef lesið þ.á.m. á þessari netsíðu er æskilegast að leyfa barninu að ná til brjóstsins á sínum hraða og geyma mælingar og annað. Nú upplifði ég þetta þannig að það liggur á að klára þessa fæðingu svo næsta komist að! Svo nú spyr ég: Hef ég ekki rétt á að stjórna þessu ferli sjálf?

„Stuttur aðskilnaður móður og barns á fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu getur haft truflandi áhrif á samband móður og barns, fyrstu brjóstagjöfina og lengd brjóstagjafarinnar í heild. Þess vegna er ekki æskilegt að trufla tengslamyndun móður og barn með því að taka barnið úr fangi móður sinnar þegar það er að byrja að skríða í átt að geirvörtunni. Betra er að bíða í 1-2 klukkustundir með hefðbundnar mælingar, baða og klæða barnið, því það getur truflað ósjálfráða hegðun nýburans. Þess í stað er gott að móður og barn að njóti þess að vera saman. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að gefa nýbura og móður góðan tíma til að byrja brjóstagjöfina á farsælan hátt og fjölskyldan eigi þessa mikilvægu stund út af fyrir sig.“

Kær kveðja, Margrét.


Sæl Margrét!

Það er leiðinlegt að heyra að þú hafir upplifað færibandavinnubrögð á fæðingardeildinni. Ég starfa þar og veit að ljósmæður eru yfirleitt ekki að flýta sér að vigta og mæla börnin heldur leggja áherslu á að barnið sé sem mest í fangi móður og taki brjóst fljótlega eftir fæðinguna ef mögulegt er. Ef þú upplifir þetta aftur þá bara biður þú um að fá að hafa barnið lengur í fanginu og spyrð hvort ekki megi bíða með vigtun, mælingar og skoðun. Þú hefur fullan rétt á að stjórna þessu sjálf.

Með von um ljúfa fæðingu og betri upplifun.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. október 2010.