Spurt og svarað

01. maí 2008

Aðstoð með brjóstagjöf

Halló 

Ég er með 3 vikna dreng og vandamálið er að hann er alltaf á brjóstinu. Þegar ég segi alltaf þá er ég ekki að ljúga. Hann svaf fyrstu 14 tímana eftir að hann fæddist og síðan þá hefur hann verið á brjóstinu að sjúga.Hann er fæddur stór eða 18 merkur og því þótti mér þetta ekkert tiltökumál, kom mér bara vel fyrir uppí sófa. En ég er með fleiri börn og get því miður ekki leyft mér þennan lúxus endalaust að sitja bara á rassinum :)

Hvernig fæ ég betri reglu á gjafirnar? Hann er rólegur í svona klukkutíma þegar allir fara á fætur á morgnanna því þá er hann búinn að drekka brjóstin til skiptis alla nóttina. Hann sefur bara 1 langan dúr og það er frá 22/23-1/2 á nóttinni og síðan kemur hann uppí að þamba. Svo eftir þennan klukkutíma á morgnanna þá byrjar ballið, drekka, sofna, leggja hann niður og vakna strax og aftur á brjóst. Hann grætur sig fjólubláan í framan ef ég þykist ætla að reyna að labba um með hann og það er mjög sjaldan sem hann bíður í smátíma fyrir næstu gjöf.Í gærkvöldi var ég orðin uppgefin eftir stanslaust þamb og gaf honum ábót uppá 50ml og hann þambaði hana og steinsofnaði. Svo eftir stanslaust þamb í dag og engan svefn nema 20 mín þá blandaði ég pela og leyfði honum að drekka að vild og hann kláraði 90ml!Núna eru komnir 3 tímar frá síðustu gjöf og ég finn engan mun á brjóstunum, er það áhyggjuefni? Ég lek ekki og er satt best að segja mjög óviss þegar það kemur að brjóstagjöf, hvað sé rétt og hvað ekki. Ég veit samt að ábót hjálpar ekki en ég veit ekki hvað annað ég á að gera, 3vikur af því að vera föst í sófanum er ekki að hjálpa mér andlega eða systkinum barnsins.Hvernig fæ ég hann til að hætta að sofna bara? Ég hef tekið hann úr fötunum og reynt að örva hann en hann sofnar samt og ég næ ekki að gefa honum hitt brjóstið því hann er sofandi þangað til hann er lagður niður og þá er hann kominn á hitt brjóstið eftir svona 10 mín. Svona gengur þetta síðan allan daginn, ég er heppin ef hann sofnar í klukkutíma.

Ég ætti kannski að taka það fram að hann er á fyrirbyggjandi penisillíni 0,5ml á dag vegna víkkaðra nýrnaskjóða og þvagleiðara báðu megin.Já og hann er ekkert sérstaklega óvær, nema bara ef ég set hann ekki á brjóstið ;)

Bestu kveðjur.

 


 

Sæl og blessuð.

Þetta hljómar nú kannski eins og eitthvað sé ekki að ganga upp hjá ykkur. Það er ekki gott að segja hvað það er miðað við upplýsingarnar. Það er trúlegt að gjafamynstrið henti ekki þessu barni. Ef gjafirnar eru mjög langar en kannski fáar þá er trúlegt að hann hafi ekki nógu gott grip á vörtunni. Ef að hann er í vandræðum með réttar tunguhreyfingar þá verður hann sífellt að vera að reyna að sjúga en fær lítið út úr því. Og ef hann fær ítrekað bara 1 brjóst í gjöf gæti það verið of lítil örvun til mjólkurframleiðslu. Ég veit að þetta eru mörg „ef“ en það eru nokkur atriði sem koma til greina. Það vantar líka þyngdartölurnar hans sem gefa manni jú alltaf ákveðna vísbendingu um hvað er að gerast. Þannig að ég ráðlegg þér að leita til réttra aðila sem fyrst því eins og þú segir þá gengur þetta ekki til langframa með aðra fjölskyldumeðlimi að hugsa um. Þetta þarf að laga og því fyrr þeim mun betra.


Ég sendi fyrirspurn áðan en gleymdi að taka þetta fram.

Hann þyngist vel og er orðinn 4660gr núna þannig að hann er að fá vel að drekka, mig vantar bara aðstoð með gjafamynstrið. Á ég t.d að neita honum að leggjast á? Láta hann bíða í klukkutíma?Svo er hann farinn að láta illa á brjóstinu, reigir höfuðið aftur með vörtuna uppí sér sem meiðir mig og stundum verður hann svona hálf trylltur, ekki að gráta en spennist allur og missir vörtuna og vill ólmur fá hana aftur en spýtir henni fljótt útúr sér aftur.

 


 

Þetta hegðunarmynstur barnsins á brjóstinu bendir til að það hafi ekki rétt tak á vörtunni. Þar með gengur því illa að ná mjólkinni og örvar lítið brjóstin. Þess vegna tekur ferlið mörgum sinnum lengri tíma en hjá öðrum. Það er oftast auðvelt mál að laga þetta.

 Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.