Bæði brjóstin eða annað?

22.07.2007

Sælar.

Ég er með stelpuna mína sem að er tæplega 8 vikna á brjósti og hefur gengið bara nokkuð vel hjá okkur. Er samt að spá í einu, hún drekkur alltaf bæði brjóstin í hverri gjöf. Er það vegna þess að ég framleiði of lítið? Er betra að ég reyni að auka framleiðsluna þannig að hún drekki bara annað í einu? Hún drekkur svolítið óreglulega, allt frá 3ja tíma fresti upp í 6-7 tíma fresti (þá yfirleitt á nóttunni). Hún hefur þyngst mjög vel en er reyndar frekar óvær og hefur verið frá u.þ.b.
2ja vikna, fær í magann finnst mér. Vegna þess er ég alltaf á tánum hvað ég borða og manni er sagt að þetta og hitt fari í magann á henni. Hef verið að sleppa t.d. káli, lauk, öllu með gosi í, appelsínusafa, appelsínum, mikið krydduðum mat og ég veit ekki hvað. Þetta er farið að skemma aðeins fyrir brjóstagjöfinni hjá mér, finnst svo leiðinlegt að vera með endalausar áhyggjur af því að ég sé að gefa henni eitthvað slæmt í magann. Liggur við að manni langi að hafa hana á þurrmjólk bara til að vera viss en ég veit bara hvað brjóstagjöfin er góð fyrir hana. Eldri stelpan mín er með barnaexem en ekkert fæðuóþol (búin að fara í tékk) og ég er með exem og frjókornaofnæmi en ekkert fæðuóþol. Skiptir það máli í þessu?

Með von um svör.

Kveðja, Stelpumamma.Sælar!

Það skiptir ekki máli hvort börnin sjúga annað eða bæði brjóstin í einu, það sem er aðalatriðið er að barnið þyngist vel eins og þín stelpa gerir. Sum börn eru óvær og með magakveisu, en hver orsökin er fyrir slíku er ekki þekkt, en fyrir sumar mæður skiptir máli að forðast ákveðnar fæðutegundir en fyrir aðrar skiptir það ekki máli - börnin eru eins og með magakveisu alveg sama hvað móðirin borðar.  Þar sem að ofnæmi er þekkt í þinni fjölskyldu er mjög mikilvægt barnsins vegna að fá að vera eingöngu á brjósti vegna þess að þá eru minni líkur á að hún fái ofnæmi og ef hún fær ofnæmi - að þá verður það minna í styrkleika ef hún fær að vera eins og hægt er bara á brjósti.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júlí 2007.