Barn á brjósti og annað á leiðinni

05.04.2006

Sælar!

Mig langar til að spyrja um það hversu lengi fram á meðgönguna er í lagi að hafa eldra barn á brjósti? Fer það bara eftir því hvernig meðgangan gengur eða þurfa brjóstin langa hvíld á milli? Sonur minn er um 11 mánaða núna og er á brjósti tvisvar til þrisvar á sólahring og það gengur vel. Mig langar ekki til að hætta alveg að gefa honum brjóst strax.  Von er á næsta kríli um miðjan nóvember.

Kveðja, krílamamma.


Sæl og blessuð krílamamma.

Það er allt í lagi fyrir þig að hafa barnið á brjósti alla meðgönguna. Brjóstin þurfa sem sagt enga hvíld. Það er hins vegar meiri hluti barna sem venja sig sjálf af brjósti á meðgöngu eða fljótt eftir fæðingu. Það er aðallega talið tengjast bragðbreytingum sem verða á mjólkinni. Ef þau venja sig ekki af þá er það bara allt í lagi ef mamma vill. Það er vel hægt að hafa 2 börn á brjósti sem eru á misjöfnum aldri og reynsla margra kvenna af því mjög góð. Það er gott fyrir börnin og líka fyrir móðurina bæði andlega og líkamlega. Ég ætti þó að vara þig við að því miður eru fordómar gegn slíku í þjóðfélaginu hjá fólki sem ekki veit mikið um brjóstagjöf og búa sér til ástæður. En reynsla kvenna gegnum árþúsundir sýna að þetta er eðlilegasti hlutur í heimi og vísindarannsóknir hafa sýnt að aðlögun líkamans er frábær að slíkum aðstæðum.

Með bestu stuðningskveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. apríl 2006.