Barn bætir hratt á sig

15.02.2012

Góðan daginn!

 Mig langaði að forvitnast um svolítið. Dóttir mín er að verða 8 vikna og var fædd 3350 gr. og 53 cm. Hún var orðin 5530 gr. og 57 cm. þegar hún var tæplega 7 vikna og er orðin voða mjúk og fín. Ég var svo að skoða vaxtalínurit og sé að miðað við þetta er hún búin að hoppa upp um 2 kúrfur. Er þetta eðlilegt? Hún er bara á brjósti og vill drekka oft. Ég hef reynt að teygja tímann milli gjafa en það gengur illa. Hún grenjar ef hún fær ekki brjóstið sitt STRAX. Ég á strák fyrir sem er 20 mánaða og hann var alltaf svo lítill og nettur að áhyggjurnar voru í hina áttina. Fylgir þessu hlutverki að vera alltaf með áhyggjur hvort sem er af eða á.

Bestu kveðjur Bollumamma.

 


Sæl og blessuð Bollumamma!

Já, þessu hlutverki fylgja alltaf áhyggjur af næringarástandi afkvæmisins. Það er mjög eðlilegt. En að þó þér finnist þetta mikill vöxtur þá þarftu ekki að hafa áhyggjur. Börn sem eru eingöngu á brjósti þyngjast gjarnan í stökkum og það kemur að því að það hægist á.Sum eru jafnvel búttuð fram á annað árið en fara þá að renna.

Með ósk um gott gengi áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. febrúar 2012.